148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefur nú lítið verið rætt hér en þó vísaði einn hv. þingmaður réttilega til þess að það væri stórmál að breyta kosningareglum rétt fyrir kosningar. Það skapar fordæmi. Og skrýtið ef við gagnrýnum það ekki þegar það er gert annars staðar. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að þetta væri mál sem þingmenn væru sammála um að vanda vel til verka við. Einhver hefði nú spurt: Er ekki skynsamlegt að skoða þetta þar sem búið er að gera þetta annars staðar og læra af reynslunni þar? Einhver hefði sagt að þegar við kæmum í þennan sal værum við komin á þann stað að við værum ekki að karpa eins og menn gera hér í atkvæðaskýringum.

Ég er fylgjandi því að börn fái að kjósa um 16 ára aldurinn en mér líður ekki vel með hvernig þetta mál er til komið. Og umræðurnar benda til þess að menn séu ekki búnir að vinna það vel. (Forseti hringir.) Það bendir allt til þess. Og þegar menn koma hingað upp og segja: Við treystum ungu fólki, en gera svo lítið úr því þegar við segjum: Bíddu, á þá ekki að vera samræmi í því að hafa þau sjálfráða og fjárráða? Það er auðvitað í besta falli afskaplega skrýtinn málflutningur. En mér sýnist að betur hefði farið á því að vinna þetta mál betur.