148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni, að það er mikilvægt að menn séu samkvæmir sjálfum sér. Það er býsna miklu léttara að vera það þegar maður kemur svo inn á milli upp og greiðir atkvæði með æluna í hálsinum. (Gripið fram í.) En það eru þrjú sjónarmið í þessu, það eru þeir sem vilja styðja þetta, það eru þeir sem leggjast gegn þessu vegna þess að eitthvert misvægi er í aldri milli ýmissa réttinda og svo eru það þeir sem tala um að fyrirvari sé of stuttur.

Hvað varðar kynninguna held ég að þetta sé einmitt besti tímapunkturinn. Þetta myndi vekja gríðarlega athygli. Landssamband ungmennafélaga er byrjað að kynna þetta og ég held að það sé miklu áhrifaríkara að gera þetta núna en að láta þetta taka gildi 2019 og svo þremur árum seinna verði kosningar. Þá held ég að það verði miklu frekar slaki á minni fólks. Við þekkjum öll gullfiskaminni íslenskra kjósenda, menn virðast gleyma stórum málum eftir nokkrar vikur þannig að ég held að tíminn sé núna.