148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:25]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að láta það liggja dálítið á milli hluta hvernig tekna er aflað af ferðaþjónustu, (Gripið fram í: Já.) en eitt er víst að einhvern veginn þarf að gera það. Þetta kostar líka. Og hvort menn gera það með komugjöldum, gistináttagjöldum eða með því, sem er kannski bara hreinlegast, að hækka virðisauka, það geta menn bara rætt og náð samkomulagi um við atvinnugreinina, eins og það heitir. En muna menn eftir samtali við atvinnugrein, sem segir bara já við álögum? Nei. Einhvern tímann þurfa stjórnvöld að fara að ákveða þetta.

Menn segja alltaf: Það er ekki rétti tíminn. En það var nefnilega rétti tíminn til að gera þetta fyrir fjórum, fimm árum þegar við vorum á leiðinni upp, þegar þessi atvinnugrein var að ryðja öllu frá sér. Núna fer kannski að harðna á dalnum og þá getur þetta orðið erfitt. En einhvern veginn þurfum við að ná utan um þetta. Hvað varðar veiðigjöld höfum við beinlínis ekki talað um veiðigjöld. Við höfum talað um að við vildum láta útgerðina sjálfa ákveða hvað hún gæti borgað þannig að hún borgaði mikið þegar hún gæti borgað mikið en lítið þegar hún gæti borgað lítið.