148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitt sem ég fann sem er mjög jákvætt í fjármálastefnunni sem mig langaði til að ræða við hv. þingmann. Það er afkoma sveitarfélaga. Það er nefnilega munur á fjármálastefnunni í ár og í fyrra, sveitarfélögin í núverandi stefnu koma út í mun meiri plús en í fyrri stefnu. Í fyrra sögðu þau að miðað við spána sem var gefin í þeirri fjármálastefnu myndu þau ekki ná henni. Núna er ekki nóg með að þau nái henni heldur er afkoman hækkuð. Þetta finnst mér áhugavert með tilliti til þess að Samband íslenskra sveitarfélaga segir líka að rekstur A-hluta sveitarfélaganna sé ósjálfbær miðað við þá skilgreiningu að þau geti ekki bæði farið í framkvæmdir eða uppbyggingu, og veitt þjónustuna. Þau verða að forgangsraða á þann hátt. En þau hafa samt forgangsraðað á þann hátt að þau hafa bætt afkomu sína.

Það sem ég hef heyrt oft núna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna er að staða sveitarfélaganna sé mjög slæm. Vissulega er hún það í örfáum sveitarfélögum. En helsta ástæða þess að sveitarfélögin í heild sinni koma betur út núna en gert var ráð fyrir í síðustu fjármálastefnu er Reykjavíkurborg sem er náttúrlega langstærsti hlutinn. Mér finnst bæði mjög jákvætt hvernig afkoma sveitarfélaganna kemur út og varhugavert, því að það þarf að huga að því að A-hluti þeirra sé sjálfbær, sem ég get ekki séð að sé í fjármálastefnunni. Þetta slær á áhyggjur fólks um að ákveðinn rekstur sé í molum, fjármálastefnan staðfestir að svo sé ekki. Mig langaði að eiga orðastað við hv. þingmann um þetta.