148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega mjög áhugavert mál að skoða í fjármálastefnunni. Það finnst í raun ekki nein stefna um að það eigi að laga þetta. Við erum að glíma við þetta vandamál á svo mörgum sviðum, í umræðum um mál sem við erum með hér á þingi, þessi gráu svæði sem leysast einfaldlega með því að ríkið hætti að einoka tekjustofnana og gefa bitlinga — það er eins og sveitarfélögin séu í ákveðinni sjálfheldu eða fátæktargildru þar sem þau eru háð einhverjum jöfnunarsjóðum eða ýmsu svoleiðis til að hafa í sig og á, til að sinna sinni þjónustu og framkvæmdum eins og Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á. Ég sakna þess að hafa enga áætlun að þessu marki, að ekki bara ríkið sé sjálfbært, og þá í rauninni út af því að það er að svelta sveitarfélögin, heldur að bæði þessi stig hins opinbera séu sjálfbær, (Forseti hringir.) bæði ríki og sveitarfélög.