148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka nú fyrir það að hér sé komið með tillögu til þess að ræða vegna þess að í umræðunni fram til þessa hefur mest verið um það að menn hafa verið að lesa upp úr eldri nefndarálitum og finna tillögunni sem liggur fyrir þinginu allt til foráttu án þess að nefna hvað það sé sem menn vilji sjá í staðinn. Hér er sem sagt lagt upp með það að ríkissjóður skili meiri afgangi, u.þ.b. 10 milljörðum, umfram það sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í sinni stefnu og að það verði gengið eitthvað hraðar í að greiða upp skuldir.

Í mínum huga er augljóst að vilji menn greiða upp skuldir af meiri krafti en er verið að gera þá munu 10 milljarðar í afkomu ríkisins telja afskaplega lítið í því átaki. Það stóra sem við getum farið í er að losa um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég vil kalla eftir sjónarmiðum hv. þingmanns um það og hvort hann er sammála mér í því efni að (Forseti hringir.) stóra tækifærið til uppgreiðslu skulda liggi í því að draga úr umsvifum ríkisins á fjármálamarkaði.