148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að það er stuðningur við það í þinginu að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum og reyndar er um það skrifað í samstarfssamningi eða stjórnarsáttmálanum. Ég vil bara halda því til haga að uppgreiðsla skulda er eitt af lykilverkefnum ríkisstjórnarinnar. Hún greip til aðgerða í því efni strax á fyrstu dögum sínum og greiddi upp erlent lán og fór í framhaldinu í skuldabréfaútgáfu á erlendum markaði til þess að sýna aðgengi að markaðnum og fékk bestu kjör sem íslenska ríkið hefur fengið í erlendri útgáfu. Sömuleiðis er gert ráð fyrir áframhaldandi uppgreiðslu skulda um u.þ.b. 40 milljarða á þessu ári og það er gert ráð fyrir því í þessari stefnu að skuldir verði áfram lækkaðar.

Þessu til viðbótar þá var ég sérstakur talsmaður þess að við myndum setja skuldareglu inn í lög um opinber fjármál sem var mjög umdeilt atriði, sérstaklega af hálfu Samfylkingarinnar sem mér heyrðist hv. þingmaður vilja komast í samstarf við.