148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:20]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil hér huga að tilteknu atvinnusviði eða atvinnuvegi í þessu sambandi sem leikur stórt hlutverk í efnahagsmálum okkar, raunar stærsta hlutverkið, menn geta ráðið í hvað það er. Ríkisfjármálastefna tekur auðvitað mið af þróun ferðaþjónustu í landinu. Þýðing hennar í efnahag landsins er afar mikil eins og hv. formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, fór yfir í sinni framsögu í þingsal í gær. Rétt er það að ferðaþjónustan mun halda áfram að vaxa en þó hægar en fyrstu árin eftir 2010 þegar ofurvöxturinn hófst eins og við þekkjum öll. Á fimm árum gæti fjöldi ferðamanna hækkað upp í tölu á bilinu 3–4 milljónir manna á ári miðað við 10% meðalvöxt hvert ár. Auðvitað gæti talan orðið hærri. Það er erfitt að spá fyrir í efnahagsástand heimsins og annað sem hefur áhrif á ferðaþjónustuna.

Það er brýnt að hyggja að yfirskrift okkar yfir öllu sem lýtur að ferðaþjónustunni. Það er meginmarkmiðið sjálft sem ég á við, sjálft inntakið í ferðaþjónustunni, það er auðvitað sjálfbær ferðaþjónusta sem við þreytumst ekki á að endurtaka. Ég vil gjarnan minna á að gildissviðin eru þrjú, það er náttúrufarslegt, samfélagslegt og fjárhagslegt. Ég vil minna líka á að hvergi er himininn endamörkin í neinu þessara gildissviða, hvorki hér á landi né annars staðar í heiminum. Þess vegna vil ég enn einu sinni minna okkur á þolmörk í þessum efnum.

Við getum séð fram á nærri tífalt fleiri ferðamenn en þjóðin telur sjálf eftir fimm ár eins og ég nefndi, 3–4 milljónir, eða enn hærri tölu. Þá spyr ég: Liggja þolmörkin á þessum punkti í sögunni? Er sjálfbærnina þarna að finna í þessari tölu t.d., 3–4 milljónir eða hærri tölu? Slíkt verður auðvitað að greina og meta og ræða og taka mið af í stjórnmálum. Þetta er ekki einfalt verkefni, en við verðum alltént að svara.

Núna eru tvö verkefni unnin á vegum hæstv. ferðamálaráðherra og hún nefndi af öðru tilefni í dag. Annað þeirra er nánast fullbúið eða fullunnið, það er skýrsla sem ég fékk hér samþykkta um þolmörk og aðgangsstýringu og hitt verkefnið er stórt greiningarverkefni um langtímaþolmörk í ferðaþjónustu og fjölmargt sem þau kalla á. Báðar eiga þessar skýrslur eftir að koma löggjafanum og framkvæmdarvaldinu að mjög góðu gagni að mínu mati.

Ég legg áherslu á þolmörk í ferðaþjónustu í allri umræðu um ríkisfjármálastefnu og af býsna augljósum ástæðum, ég ætla að nefna þrjár. Þolmörk fela í sér að ekki er óheftur vöxtur kleifur í ferðaþjónustunni, t.d. upp á 7–10 milljónir ferðamanna á ári. Þar held ég að við séum komin yfir þolmörkin. Þolmörk fela í sér að auðlindanytjum, sjálfum grunni ferðaþjónustunnar, verður að stýra með sjálfbærni einmitt að leiðarljósi eins og öðrum auðlindanytjum í þessu landi. Þolmörk fela í sér að við hljótum að takmarka uppbyggingu flugþjónustu að og frá landinu á endanum. Óheftur vöxtur er varla í boði þar. Eða hvað?

Þetta merkir nokkuð örugglega að endurskoðun ríkisfjármálastefnu í náinni framtíð verður að fara fram. Áhrif ferðaþjónustu á efnahagslífið munu breytast á næstu árum. Þessi áhrif eru ekki fyrirsjáanleg nú og ferðaþjónustan hefur sín takmörk í hlutfalli við aðrar atvinnugreinar, bæði í stefnu og öllum áætlunum, t.d. ríkisfjármálaáætlun. Við ætlum auk þess, og það er kannski mikilvægt, að fást við fjöldann allan af verkefnum í samfélaginu og atvinnulífinu öðrum en ferðaþjónustu og ætlum að byggja upp fjölþætt og framsækið efnahagslíf með hagsmuni fjöldans að leiðarljósi. Þar á ferðaþjónustan að vera ein stoð en ekki langstærsta stoðin.

Loks til umhugsunar. Í augsýn er ef til vill og ég á kannski að segja nær örugglega, ný áskorun. Það eru kaupskipaflutningar um Norður-Íshafið. Af því tilefni þarf að ræða og undirbúa viðbrögð og takast á við erfiðar og dýrar umhverfisbreytingar í sömu andrá. Sennilega gæti þessi þróun fyrst haft áhrif á næstu ríkisfjármálastefnu, ekki þá sem við erum að ræða núna heldur kannski þá þarnæstu, en við eigum að hafa varann á og láta nákvæmlega þetta málefni smitast út í umræðu og stefnumótun.

Ég hef nú notað þessar fáeinu mínútur til þess að minna á áskorunina við að vinna með ferðaþjónustu sem áhrifavald við gerð ríkisfjármálastefnu og í sjálfu sér fimm ára ríkisfjármálaáætlun líka. Þetta er umbótastefna sem við erum hér að ræða með félagslegu yfirbragði, en þetta er hvorki sveltistefna né byltingarstefna. Þar með hef ég lokið mínu máli.