148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:29]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú að játa að ég fylgdi hv. þingmanni ekki alveg eftir, en það er ekki í fyrsta sinn. Ég vil aðeins eyða orðum að því hvernig við náum sjálfbærni og að þetta verði ekki of stór atvinnugrein. Það var kjarninn í mínu máli. Ég var að vara við að við létum þessa tilteknu atvinnugrein vaxa yfir þau þolmörk sem efnahagslífið hefur og samfélagið og náttúran. Ef við ætlum að stýra því að þetta gerist ekki þurfum við vissulega að setja fram markmið og við þurfum að setja fram greiningar á því hvaða tæki og tól við höfum til þess. Ég nefndi eitt dæmi, þ.e. að við getum auðvitað ekki gengið þannig um garða að flugþjónusta verði til dæmis fullkomlega ótakmarkaður atvinnuvegur; þannig umgengumst við einu sinni fiskveiðiauðlindina og fiskuðum hér eins og enginn væri morgundagurinn.

Hvernig gegnsæi eða önnur grundvallarviðmið fjármálastefnunnar tengjast því sem ég var að segja? Ég get ekki svarað því í fljótu bragði. Ég ætla að vona að hv. þingmaður komi hingað upp nú á eftir og spyrji mig skýrra spurninga sem ég get svarað.