148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna; það er stundum smávandamál hjá mér að koma máli mínu skýrt á framfæri á stuttum tíma. En það vandamál sem hv. þingmaður lýsir er „öll egg í eina körfu“, vandamál sem við höfum líka átt við að stríða í raforkuiðnaði, með álið o.s.frv. Hv. þingmaður nefnir ákveðna stjórn á flugauðlindinni sem slíkri og það er einn mælikvarði sem hægt er að miða við til að hafa stjórn. Erum við að ná þeim markmiðum með stjórn á flugferðum og flugsamgöngum til þess að hafa ákveðinn hemil á ferðaþjónustunni eða ekki? Er það eðlilegt? Það er eitt sem maður getur notað til að útskýra framsetningu varðandi gagnsæi. Það uppfyllir líka skilyrði um sjálfbærni ef það er sett þannig fram að við ætlum að miða við ákveðna notkun á flugumferð. Hér eru mælanleg markmið til þess og það uppfyllir sjálfbærnimarkmið í ferðaþjónustu. Það var það sem ég var í raun að hrósa hv. (Forseti hringir.) þingmanni fyrir í flutningsræðu sinni, að hann kom með haldbæra stefnu (Forseti hringir.) og viðmið sem vantar einmitt í fjármálastefnuna sjálfa. Afsakið.