148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Öll eggin í eina körfu — við erum svo sem innilega sammála um að svo geti þetta ekki verið. Það tengist þolmarkaumræðunni yfir höfuð, einn hluti þolmarka eru hin samfélagslegu. Það er alveg ljóst, að minnsta kosti að mínu mati og sennilega flestra Íslendinga, að við höfum ekki áhuga á því að hér verði einhvers konar samfélag þar sem hálfgerður „mónókúltúr“ ríki, svo að maður sletti útlensku, hér verði nánast ein atvinnugrein sem beri allar aðrar uppi. En ef markmiðið er að hafa hemil á vexti tiltekinna atvinnugreina eru leiðirnar margar. Ég nefndi flugmálin sem eina mögulega leið. Raunverulega þurfum við að greina og skoða hvaða aðrar leiðir það eru. Þær geta verið markaðslegar, tengst kynningu, tengst markmiðum sem við setjum okkur um álag á náttúru Íslands o.s.frv. Ég get ekki séð að þetta komi fram í ríkisfjármálastefnunni sjálfri, þessi atriði. Þetta eru útfærsluatriði sem leið inn í ríkisfjármálaáætlun og síðan inn í fjárlög.