148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að orðum hv. þingmanns um að samfélagslegi þátturinn komi fyrst: Ég held að enginn af þessum þremur þáttum sjálfbærni geti komið fyrst. Þetta er í raun samtengdur hringur, ef við getum orðað það þannig. Samfélagsleg sjálfbærni á Íslandi byggist á jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar. Við lifum af náttúrunni og getum ekki gert það almennilega öðruvísi en að finna jafnvægi þarna á milli og það gengur beint inn í æðar samfélagsins.

Varðandi leiðir til að stýra ferðaþjónustu eða komu ferðamanna þá er það nú einmitt það sem þessar skýrslur og þessar greiningar eiga að segja okkur eitthvað um. Það eru örugglega fimm til tíu leiðir til að gera það og þær virka allar saman. Ég nefndi þetta með flugþjónustuna af því það er svo augljóst að við verðum ekki Dubai norðursins í sjálfu sér, ekki að mínu mati. Aðrar leiðir til þess byggjast á mati á þolmörkum náttúrunnar á Íslandi. Við setjum okkur auðvitað það mark að Ísland sé eftirsóknarvert á mörgum sviðum, þar á meðal á sviði ferðaþjónustu. Það byggist á því að hér sé ákveðin ímynd til staðar sem er ólík Majorka eða einhverju slíku. Þar með erum við komin að því að við búum til ítölur eða eitthvað slíkt. Síðan er þessu stýrt ekkert ólíkt því sem við stýrum fiskveiðum, eða að ásókn eða álag sé einfaldlega bundið ákveðnum reglum og ákveðnum talnagreiningum og öðru slíku. Það er ekkert rangt eða ljótt við það gagnvart umheiminum að við reynum að hafa hér sjálfbæra ferðaþjónustu öllum til gleði og gagns.