148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og sérstaklega fyrir að koma aðeins inn á umræðuna sem ég náði ekki alveg að svara hv. þm. Pawel Bartoszek áðan. Það kunna að vera góð rök fyrir því að skuldir séu einhverjar, þ.e. að fjármunir séu ekki allir nýttir í að greiða upp skuldir, því að það er líka mjög mikilvægur punktur.

Ég veit ekki hvort ég skildi fullkomlega spurninguna frá hv. þingmanni, en hann hefur svo sem rætt það mikið hér að honum finnist skorta á í greinargerðinni skýringar á því hvernig við uppfyllum þessi grunngildi í stefnunni. Að einhverju leyti skil ég þá hugmynd og ég tel að við getum gert enn betur í þeim efnum. Þá kem ég aðeins inn á það sem ég var að reifa í ræðu minni áðan, við erum hér með tiltölulega nýleg lög og nýlega verkferla. Ég held að þau séu til svo mikilla bóta frá þeim stað sem við vorum á fyrir nokkrum árum þegar við ræddum eingöngu fjárlög hér. Þá voru engar umræður eins og eiga sér stað núna um fjármál ríkisins, hvað þá að við horfðum tvö, þrjú ár fram í tímann.

Ég held að við séum með góð lög í höndunum. Ég held að við séum með mjög gott verkferli. Ég held að við séum að uppfylla það sem þar segir, en með því er ég ekki að segja að við getum ekki gert enn betur. Ég held að það sé full ástæða til að orða það sem svo kannski að þroska enn frekar umræðuna um það hvernig við færum rök fyrir því að við séum að uppfylla þessi grunngildi þótt ég verði að viðurkenna að mér finnst það með einhverjum hætti segja sig svolítið sjálft að þegar maður greiðir upp skuldir og viðheldur fjárfestingum sínum sé maður að viðhalda einhvers konar sjálfbærni og það sé ákveðið varfærniskref að greiða upp skuldir en ekki safna skuldum.