148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og þakka honum sérstaklega fyrir að vekja einmitt athygli á mikilvægi sveitarfélaganna í þessu samhengi. Eins og ég kom inn á í ræðu minni held ég að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það hérna. Það er rétt eins og kemur fram í máli hv. þingmanns að það er tekið á þessu varðandi sveitarfélögin og samráðið við þau í lögunum. En eins og ég benti á í ræðu minni þá er ekkert í sveitarstjórnarlögunum sem tekur á þessum sama þætti.

Ég held að það hafi reyndar verið mikið heillaskref þegar fjármálareglurnar voru settar inn í sveitarstjórnarlögin, nú man ég ekki hvort það var 2008 eða 2011, það er önnur hvor talan sem situr í hausnum á mér. Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt skref. Það er annars vegar skuldareglan, að skuldirnar skuli ekki fara yfir 150% og hins vegar þessi jafnvægisregla, um þriggja ára tímabil. Sú regla er varfærniregla og var gríðarlega mikilvægt að setja inn á sínum tíma. Ég hygg að nú séu flest sveitarfélögin farin að ná þessum mörkum, þó með einhverjum undantekningum.

Nú held ég að við þurfum mögulega að fara að stíga næsta skref. Það var einmitt þess vegna sem ég var að benda á það í ræðu minni að við þurfum að fara að huga að því hvort ástæða er til að breyta lögum um sveitarfélög, þá fjármálakaflanum, til þess að þau tali betur við lögin um opinber fjármál. Nú erum við einmitt á þessum stað í hagsveiflunni og loksins núna eru sveitarfélögin kannski farin að sjá ágóðann af hagsveiflunni, útsvarstekjur hafa aukist gríðarlega og velflest sveitarfélög skila ágætisafgangi. Þá lítum við líka fram á það að það kann að vera ákveðinn freistnivandi t.d. í gangi núna þegar líður að kosningum, það getur svo sannarlega haft áhrif einmitt á þessa þætti sem við erum að fjalla um hér.

Ég kem kannski að því í seinna svari, því að ég er að renna út á tíma, hvernig samstarfið hefur gengið varðandi samráðsvettvanginn, en ég held að við þurfum að horfa á þetta sem næsta skref, það kunni að vera ástæða til að breyta lögunum.