148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[20:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða örstutt um skattamálin. Ég vil þá byrja á að vísa í stjórnarsáttmálann þar sem kveðið er á um að ríkisstjórnin vilji lækka tekjuskattinn í neðra þrepinu til þess að styðja við stöðugleika á vinnumarkaði. Þar horfum til þeirrar stöðu að nafnlaunahækkanir á undanförnum árum hafa verið verulegar á sama tíma og gengi krónunnar hefur styrkst töluvert og þrengt hefur að samkeppnisstöðu útflutningsgreinanna. En á sama tíma hefur verið viðvarandi þó nokkuð mikil spenna á vinnumarkaði, þ.e. enn er krafist frekari kjarabóta. Við slíkar aðstæður og með það skattstig sem við erum með í tekjuskattinum finnst mér það vera skynsamleg ráðstöfun að gera ráð fyrir lækkun tekjuskatts til að rýma fyrir betri kjörum án þess að það þurfi allt að gerast í gegnum launaliðinn í kjarasamningum.

Þessu tengt er orðið brýnt að við tökum til endurskoðunar samspil tveggja þrepa tekjuskattskerfis með persónuafslætti við þessi stóru bótakerfi sem eru stærst, barnabótakerfið og síðan vaxtabótakerfið, og þeim kerfum til viðbótar ívilnanir í tekjuskatti í gegnum úttektir í sérseignarsparnaði; síðan ofan á þetta koma húsnæðisbætur vegna leigjenda. Það væri hægt að halda áfram og fara út í almannatryggingakerfið og benda á barnalífeyri þar. Þetta er orðið gríðarlega flókið samspil margra bótakerfa (Forseti hringir.) við tekjuskattskerfið og full ástæða til að fara yfir það hvort við getum betur náð markmiðum okkar.