148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við höfum setið saman í fjárlaganefnd í svolítinn tíma. Þingmaðurinn talar mjög mikið um form. Ég hugsaði til þess líka þegar ég las yfir þetta nefndarálit sem fleiri flokkar undirrita reyndar en mig langar að spyrja fyrst og fremst út í viðhorf hv. þingmanns sem Pírata og fulltrúa þeirra.

Ef hv. þm. Björn Leví Gunnarsson væri fjármálaráðherra, hvernig hefðu prósentuhlutföllin litið út í stefnunni sem hér er lögð fram? Hefði þingmaðurinn treyst sér til þess að bregðast við þeirri gagnrýni sem hann setur fram í nefndarálitinu á þeim tíma sem ríkisstjórn hefur til umráða? Hann talar um að tímaramminn gangi gegn grunngildinu um varfærni. Mig langar að spyrja hann svolítið út í pólitíkina, efnahagsstefnu Pírata, hvernig hún hefði verið uppfyllt ef þeirra hefðu verið völdin til að setja þetta fram.

Mig langar líka til að spyrja um tekjumöguleika. Hér er tekið undir að fara eigi í framkvæmdir, setja aukinn kraft í viðhald og uppbyggingu, en í rauninni eru ekki beinar tillögur um hvernig beri að gera það. Ég spyr hann út í það. Þá má segja að hér hafi komið fram tillaga frá hv. þm. Pawel Bartoszek o.fl. í Viðreisn. Þetta er ekki einfalt verkefni eins og við þekkjum og töluvert af réttmætri gagnrýni og við vitum að verið er að vinna að þessu.

Mig langar að fá sýn Pírata og fjármálaráðherra þeirra sem hefði væntanlega verið.