148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er ekki í sæti sínu. Ég mun helst beina gagnrýni minni að flokki ráðherra, ef hann vill vera hér til einhverra andsvara. En það sem skiptir mestu máli þegar við erum að loka þessari umræðu um fjármálastefnu og ég hef saknað er að þetta er stórpólitísk umræða. Það er hægt að festa sig í umræðunni um einhverjar töflur, tölur á blaði, en þetta er sennilega ein mikilvægasta umræðan sem við eigum um stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma, um hlutdeild stjórnvalda í hagstjórninni.

Mér finnst gott hér undir lok þessarar umræðu að rifja upp enn og aftur af hverju í ósköpunum við vorum að þessu. Þetta á jú að vera einn stærsti og veigamesti þátturinn í þeim lærdómi sem við drógum af síðasta hruni, að taka utan um hagstjórn eða réttara sagt algeran skorti á hagstjórn og sérstaklega þætti ríkisfjármálanna í hagstjórn í gegnum tíðina.

Mér er það sérstaklega hugleikið og hefur verið það um langt árabil vegna þess að sprota- og tæknifyrirtækin okkar, útflutningsgreinarnar okkar, reiða sig á þessa hagstjórn og þátt ríkisins í hagstjórninni. Við tölum gjarnan um þrjá arma hagstjórnar, það eru ríkisfjármálin, peningastefnan og vinnumarkaðurinn. Ríkisvaldið hefur heldur lítið um vinnumarkaðinn að segja en þó eitthvað, en það hefur allt um ríkisfjármálin að segja og talsvert mikið um þá peningastefnu eða peningastjórn sem við störfum eftir. Enn og aftur erum við hér í raun að endurtaka sömu mistök sem fyrr. Ríkisfjármálin eru að fara út af sporinu. Við stefnum sennilega í eitt mesta eyðslukapphlaup sem fram hefur farið í seinni tíð í ríkisútgjöldum. Mér sýnist að í þessari ríkisstjórn hlaupi hver ráðherrann um annan þveran til að ná að auka útgjöld enn frekar en orðið er. Og eru þau þó ærin fyrir.

Af hverju skiptir þetta svona miklu máli? Jú, við lifum á útflutningi. Einn helsti lærdómur okkar af síðasta hruni var, og við skrifuðum um það margar lærðar skýrslur, að við þyrftum að efla alþjóðageirann okkar, efla útflutningsfyrirtækin, tæknifyrirtækin, sprotafyrirtækin okkar. Við sáum það á fyrstu árunum eftir hrun að sá geiri tók mjög vel við sér. En í alþjóðlegu samhengi erum við miklir eftirbátar nágrannaþjóða okkar þegar kemur að vægi alþjóðageirans, vægi tæknigeirans, í hagkerfinu hjá okkur í landsframleiðslunni með einhver 10–12%, á meðan t.d. Svíar eru með að minnsta kosti tvöfalt það.

Af hverju skiptir það máli? Við erum með útflutningsgreinar sem byggja fyrst og fremst á auðlindum. Eins og við höfum rætt, m.a. í þessari umræðu, eru þessar auðlindir allar sama marki brenndar, þær eru takmarkaðar. Þó svo að við höfum fengið verulegan búhnykk í ferðaþjónustu vitum við að þar er líka um takmarkaða auðlind að ræða. Það eru þolmörk sem við þurfum að virða. Við getum ekki vaxið endalaust í ferðaþjónustu frekar en í sjávarútvegi eða orkugeira.

Þess vegna skiptir enn og aftur máli að skapa alþjóðageiranum, tæknifyrirtækjunum það umhverfi sem þau þurfa til að vaxa og dafna. Það var meginniðurstaða McKinsey-skýrslunnar á sínum tíma: Ísland verður að leggja alla áherslu á tækni- og sprotageirana. Við tölum um það mjög fjálglega á tyllidögum að við viljum efla menntakerfið, efla sprota- og tæknifyrirtækin. En niðurstaða McKinsey-skýrslunnar, niðurstaða samráðsvettvangsins, var að fyrsta meginskilyrðið til þess að alþjóðageirinn gæti vaxið hér og dafnað væri að hann fengi stöðugleika. Þess vegna fórum við í allar þessar umbætur varðandi hagstjórnina, þátt opinberra fjármála, peningastjórnar, til að skapa þessum geira nauðsynlegan stöðugleika til að geta vaxið og dafnað. Stöðugt gengi, stöðugt verðlag, eins stöðugt efnahagsumhverfi og við mögulega getum, eins lágt vaxtastig og við mögulega getum.

Flokkur hæstv. fjármálaráðherra hefur talað mikið um þennan stöðugleika. Hann hefur eytt með réttu töluverðu púðri í að gagnrýna t.d. óstöðugleika á vinnumarkaði og það tjón sem hann getur valdið okkur. En á sama tíma er ekki tekið á hinum tveimur meginþáttum hagstjórnunarinnar, annars vegar peningastefnunni, þar sem flokkur hæstv. fjármálaráðherra var lengi vel með í landsfundarstefnu sinni að taka hér upp alþjóðlega gjaldgenga mynt, en þurrkaði það út úr stefnu sinni nú. Og hins vegar þeim þætti ríkisfjármálanna, að ríkisfjármálin væru ekki að magna upp hagsveifluna, eins og alltaf hefur verið, heldur þvert á móti væri reynt að taka undir með Seðlabanka, sama hvaða peningastefnu unnið væri eftir, um að skapa hér stöðugleika.

Það er alveg ljóst af umræðu um fjármálastefnuna að hér er verið að endurtaka hagstjórnarmistök sem gerð voru fyrir tíu árum, líka fyrir 20 árum og fyrir 30 árum síðan. Ef við horfum á gengissögu íslensku krónunnar sést að við höfum siglt í gegnum boðaföll í gengi á tíu ára fresti allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar hið minnsta. Þetta umhverfi er ekki vaxtarumhverfi tækni- og sprotafyrirtækja. Við getum eytt öllum þeim tíma sem við viljum í þingsal í að tala fallega um mikilvægi þess að efla menntakerfið og auka fjárfestingu í menntun, en ef við sköpum því fólki sem við ætlum að mennta ekki störf þá er líka ágætt að hafa í huga að í gegnum EES-samninginn erum við með aðgang að alþjóðlegum vinnumarkaði. Þetta vel menntaða fólk leitar einfaldlega annað. Það sjáum við á vinnumarkaðstölum okkar núna. Við höfum fyrst og fremst verið að skapa störf fyrir tiltölulega lágt menntastig að uppistöðunni til.

Án þess að gera lítið úr mikilvægi ferðaþjónustunnar í þessu samhengi verðum við einhvern tíma að ná utan um hvernig við ætlum að skapa tækni- og sprotafyrirtækjunum það nauðsynlega og stöðuga efnahagsumhverfi til að þau geti vaxið og dafnað. Því að það er alveg ljóst að við erum að verða uppiskroppa með auðlindir til að leita í til að leiða hagvöxtinn áfram. Það er ekki þverpólitísk samstaða um olíunýtingu, fyrir utan það að hún hefur ekki fundist. Það er alveg ljóst að sjávarútvegi eru sömu skorður settar og fyrr. Það er alveg ljóst að það er ekki pólitísk samstaða um frekari virkjanir að neinu ráði. Við erum nokkurn veginn komin að endimörkum auðlindanýtingar þar.

Við stöndum eftir með nauðsyn þess að byggja upp í tækni- og sprotafyrirtækjunum. Við sjáum enn og aftur að þar hefur nákvæmlega ekkert gerst á undanförnum árum. Þessi fyrirtæki hafa frekar verið að færa sig úr landi. Það heyrir maður og það kemur mjög skýrt fram þegar talað er við fulltrúa hagsmunasamtaka þessara fyrirtækja eins og Samtök iðnaðarins. Það er einfaldlega ekkert að frétta úr því umhverfi undangengin þrjú, fjögur ár. Þessi fyrirtæki eru að koðna niður aftur.

Ég held að við þurfum að hafa það í huga þegar við ræðum fjármálastefnuna og þátt hennar í hagstjórninni, að því miður er það svo að ekki er verið að beita þessu tæki, fjármálastefnunni, í hagstjórnarlegu samhengi. Henni er beitt til að skapa ríkisstjórn útgjaldasvigrúm, númer eitt, tvö og þrjú. Það er megintilgangurinn með þeim breytingum sem gerðar voru á þessari fjármálastefnu frá þeirri fyrri.

Ég er alveg sammála hæstv. fjármálaráðherra, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, um að stefna fyrri ríkisstjórnar var síst of aðhaldssöm. En samt er verulega slakað á núna af því að meginútgangspunkturinn er ekki hagstjórnarlegur tilgangur fjármálastefnunnar. Megintilgangurinn er að skapa þessari ríkisstjórn það súrefni sem hún þarf, sem er útgjaldasvigrúm, svigrúm til að auka útgjöld enn frekar. Og það svigrúm sem við sjáum að stefnir í að hér verði slær nýtt met í útgjaldavexti ríkissjóðs í valdatíð Sjálfstæðisflokksins.

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn ætti kannski að hætta að tala um hagstjórn. Hann sinnir henni ekki. Það er alveg deginum ljósara. Það verður því miður væntanlega hlutskipti næstu ríkisstjórnar, enn og aftur, að taka til eftir þetta útgjaldafyllirí, líkt og fyrir áratug síðan eða svo. Því miður virðist svo vera, enn og aftur, að okkur takist aldrei að höndla hamingjuna. Okkur tekst aldrei að spila vel úr góðærinu. Við förum alltaf fram úr okkur, við missum alltaf tökin. Það er nefnilega ekki góð hagstjórn, það er ekki góð stjórn á útgjöldum ríkissjóðs að eyða bara því sem aflað er. Það er nefnilega einmitt þegar fjármagnið streymir inn í ríkissjóð sem reynir á íhaldssemina sem Sjálfstæðisflokkurinn á annars svo nóg af. (Forseti hringir.) Það væri ágætt ef Sjálfstæðisflokkurinn gæti sýnt meiri íhaldssemi í útgjaldastjórn en hann gerir hér.