148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, ríkið er vissulega orðið mjög stælt. Ef við mælum þann styrkleika í heildarútgjöldum eða útgjöldum á mann er það sennilega orðið tröllvaxið.

En enn og aftur, það er ekki hagstjórn að eyða peningum þegar þeir streyma inn. Hagstjórnin felst einmitt í að hafa styrkinn til að sýna myndarlegan afgang af ríkisfjármálunum þegar á þarf að halda til að halda vaxtastiginu niðri, halda gengisstyrkingum í skefjum. Við skulum átta okkur á því að þegar við horfum á t.d. nýlega könnun Samtaka atvinnulífsins á stöðu og horfum í atvinnulífinu er alveg svart og hvítt hvort við erum að horfa á innlendar þjónustugreinar eða útflutningsfyrirtæki. Útflutningsfyrirtækin hafa kvartað mjög lengi. Meira að segja ferðaþjónustan, sem er þó öðrum fremur búin að stuðla að þessari miklu gengisstyrkingu, þolir hana ekki lengur, kvartar orðið hástöfum og bendir á að það sé margt og mjög mikið að breytast í rekstrarumhverfi greinarinnar á mjög skömmum tíma. Þetta er varhugavert.

Það er alveg rétt að heimilin njóta vissulega góðs af því að gengið styrkist en við erum líka að leita að stöðugleika fyrir heimilin. Við vitum alveg hvað það þýðir þegar gengið brestur. Þá brýst verðbólgan fram, verðtryggingarþátturinn kemur inn í húsnæðislán heimilanna og við stöndum enn og aftur í þeirri stöðu, eins og ég hef nefnt áður, að við erum rík á tíu ára fresti og fátæk á tíu ára fresti. Við náum sjaldan góðum stöðugleika þarna á milli. Það er þetta sem við erum að leita eftir í góðri hagstjórn, að við náum meiri stöðugleika. Stundum er betra að vaxa aðeins hægar, að ríkið gæti að sér í uppsveiflunni til að vera ekki að kynda undir hagvextinum, til þess að eiga innstæðu til að styðja við hagkerfið þegar það gefur eftir.

Við upplifum enn og aftur það sama, það verður engin innstæða eftir í ríkissjóði til að styðja við hagkerfið þegar það þarf á því að halda af því að við verðum búin að lofa henni í föstum útgjöldum ríkissjóðs fram á veginn (Forseti hringir.) með þeirri útgjaldaaukningu sem hér er boðuð.