148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í dag 23. mars er dagur Norðurlandanna. Það var því ánægjulegt að mæta til vinnu í morgun og sjá glæsilega fánaborg blakta við hún framan við Alþingishúsið, fána Norðurlandanna í allri sinni dýrð. Af því tilefni langar mig til að hafa nokkur orð um þýðingu norræns samstarfs fyrir okkur Íslendinga.

Samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs skiptir Ísland afar miklu máli þar sem Ísland er smáríki og því veitir norrænt samstarf okkur ákveðna fótfestu á alþjóðavettvangi. Við erum samstiga öðrum Norðurlöndum í helstu áskorunum og álitamálum í hinu alþjóðlega umhverfi. Þannig tala Norðurlöndin oft einum rómi t.d. þegar kemur að öryggismálum, umhverfis- og loftslagsmálum og jafnréttismálum. Norðurlandaþjóðirnar deila einnig sameiginlegri sýn á ákveðin grundvallargildi eins og um mikilvægi mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins og um friðsamlega lausn deilumála.

Norðurlandaráð er þingmannavettvangur í opinberu norrænu samstarfi og mörg þeirra réttinda sem eru sameiginleg á Norðurlöndunum eiga rætur að rekja til Norðurlandaráðs. Það var stofnað árið 1952 og er skipað 87 þingmönnum frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess og í Íslandsdeild Norðurlandaráðs eiga nú sæti sjö þingmenn úr sex þingflokkum. Norræna ráðherranefndin var síðan sett á laggirnar árið 1971.

Á döfinni á vettvangi Norðurlandaráðs er þing ráðsins á Akureyri dagana 9.–10. apríl næstkomandi, en þema fundarins er hafið. Þar eiga Norðurlöndin auðvitað ríkra sameiginlegra hagsmuna að gæta. En þess ber einnig að geta að Noregur fer nú með formennskuáætlun í Norðurlandaráði, þema þeirra er hafið og svokölluð blábók.

Norrænu gestirnir sem koma að heimsækja okkur til Akureyrar munu m.a. kynna sér sjávarútveg á Akureyri. Þar er án efa ýmislegt sem þeir geta tekið sér til fyrirmyndar. Velferðarnefnd Norðurlandaráðs mun (Forseti hringir.) jafnframt heimsækja Jafnréttisstofu á Akureyri og fræðast um jafnlaunavottun, en á því sviði hafa Íslendingar sem kunnugt er verið frumkvöðlar.