148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[11:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur stappar nærri því að ég vilji bera af mér sakir. Hv. þm. Birgir Ármannsson segir að hann gruni að þeir sem hafi sannfæringu fyrir því að samþykkja eigi málið séu löngu hættir að spyrja sig spurninga um efnisatriði málsins. Það finnast mér heldur kaldar kveðjur til mín og annarra hv. þingmanna sem sitjum í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Við nýttum ekki bara hádegisverðarhléið í gær heldur einnig kvöldverðarhléið til að kalla inn nýja gesti einmitt til að spyrja þá spurninga til að fá úr því skorið hvernig yrði farið með framkvæmd kosninganna, yrði þessi tillaga hér að lögum. Hvernig menntamálaráðuneytið hygðist fara með framkvæmd þeirrar uppfræðslu sem nauðsynlegt er að fari fram, og fengum á okkar fund fulltrúa t.d. LUF, þ.e. fulltrúa unga fólksins, sem mér finnst hv. þingmaður oft gleyma að er andlag og það sem liggur undir þessu frumvarpi. Ekki landsfundur Sjálfstæðisflokksins eða við hér inni heldur unga fólkið sem myndi öðlast þennan kosningarrétt. Mér finnst frekar óeðlilegt að tala þannig að aðrir séu hættir að spyrja sig spurninga en þeir sem koma nýir að málinu. Það má þá spyrja um þá sem koma nýir að málinu hvort þeir hafi þá verið að vinna vinnuna sína ef málið er nýtt fyrir þeim núna, sem var lagt fram 16. desember í fyrra.

Hvað mig varðar hef ég einmitt sífellt verið að spyrja mig spurninga í þessu máli. Ég hef spurt spurninga á hverjum einasta fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, lesið mig í gegnum allar umsóknir og talað við gesti. Og lært af reynslu þeirra sem hafa reynt þetta.

Hv. þingmanni verður tíðrætt um reynslu Norðmanna, sem er þá eina dæmið sem við höfum þar sem er slæm reynsla af lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár. Ég spyr af hverju hv. þingmaður líti ekki t.d. til Maltverja. Ég get fært hv. þingmanni þau góðu tíðindi að frá því að við skrifuðum þetta frumvarp (Forseti hringir.) hefur það gerst að Maltverjar, sem reyndu það í sveitarstjórnarkosningum að lækka kosningaaldur niður í 16 ár, hafa nú tekið skrefið til fulls því að reynslan af því var svo góð að þeir samþykktu í upphafi þessa mánaðar að það gilti einnig í þingkosningum.