148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég tek undir orð annarra þingmanna hér og þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni. Það er dálítið gaman að við séum að taka umræðu um peningastefnu í þinginu, við gerum það held ég allt of sjaldan. Innflæðishöftin, sem Seðlabankinn er að beita núna, eru nefnilega órjúfanlegur þáttur sjálfstæðrar peningastefnu með örsmáa mynt eins og íslenska krónu. Það kemur skýrt fram í rökstuðningi Seðlabankans fyrir höftunum og það kemur raunar mjög skýrt fram í málflutningi flestra þeirra sérfræðinga sem tekið hafa til máls um þetta mál að eins óæskileg og höft af þessu tagi séu þá sé líka alveg ljóst að við munum ekki reka svona lítinn gjaldmiðil án hafta. Þau kunna að vera útflæðishöft á tímum eins og við upplifðum hér eftir hrun, en þau kunna þá líka að vera innflæðishöft þegar við glímum við þenslu í hagkerfinu líkt og nú er.

Seðlabankinn segir með mjög skýrum hætti í rökstuðningi sínum fyrir þessum innflæðishöftum: Megintilgangur þeirra er að beina aðhaldi peningastefnunnar í vaxtafarveginn en ekki gengisfarveginn. Því það er vissulega hægt að halda verðbólgu niðri með því að láta gengið styrkjast von úr viti, en við vitum að það grefur undan útflutningsatvinnuvegunum okkar og er miklu verra, miklu kostnaðarsamara, til lengri tíma litið en einfaldlega að viðurkenna kostnaðinn af sjálfstæðri peningastefnu, sem er vaxtamunurinn sem í henni felst, þ.e. kostnaðurinn af krónunni.

Það væri miklu heiðarlegra ef talsmenn þeirra flokka sem tala hér fyrir áframhaldandi sjálfstæðri peningastefnu í formi íslenskrar krónu — undirritaður er ekki einn þeirra — myndu tala um kostnaðinn sem fylgir henni. Það er vaxtamunur. Það er verðtrygging. Það er ekki hægt að hjóla í afleiðingarnar afmarkaðar og ætla að banna þær, (Forseti hringir.) banna innflæðishöft, banna verðtryggingu. Þetta er einfaldlega hluti af kostnaðinum við sjálfstæða peningastefnu. Það þarf að tala um það þannig.