148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:43]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem ég var áðan. Þetta er einmitt spurning um heiðarleika í umræðu um sjálfstæða peningastefnu. Stjórnmálamenn hafa þann leiðinlega ósið að fagna sveigjanleikanum, dásama krónuna, hvað það sé frábært að hafa þennan sjálfstæða gjaldmiðil, hann sé svo mikilvægur, en leyfa sér síðan alltaf að bölva afleiðingunum án þess að ræða nokkurn tímann rót vandans. Hátt vaxtastig er bein afleiðing af smárri mynt. Það er óumflýjanlegt. Hún mun aldrei ná neinum stöðugleika án þess að hafa þokkalegan vaxtamun við nágrannalönd okkar. Hefur alltaf verið þannig. Við höfum horft á það um áratugaskeið.

Sveiflur í gengi er önnur afleiðing af þessari sjálfstæðu mynt. Við dásömum gjarnan þessar sveiflur þegar krónan er að styrkjast, en bölvum þeim þegar hún veikist síðan aftur, sem hún gerir alltaf, óumflýjanlega. Það er því miður er æði margt sem bendir til þess að slíkt skeið veikingar kunni að vera skammt undan.

Í stuttu máli. Ég er í hjarta mínu mjög andvígur þessum innflæðishöftum því ég tel mjög óæskilegt að við reisum skorður eða hindranir fyrir innflæði erlends fjármagns inn í hagkerfið okkar. Það væri í raun mjög æskilegt að lífeyrissjóðir gætu t.d. nýtt sér þetta innflæði sem áhugi er fyrir til þess að auka erlendar fjárfestingar sínar. En um leið er það alveg skýrt í rökstuðningi Seðlabankans að þessi höft eru nauðsynlegur þáttur sjálfstæðrar peningastefnu. Ef þau væru ekki fyrir hendi þá myndi gengið styrkjast enn frekar en þegar er orðið, grafa enn frekar undan útflutningsatvinnugreinunum, auka enn frekar líkurnar á gengisóstöðugleika eða gengishruni í framtíðinni. Því miður.

Þessi innflæðishöft eru óhjákvæmilegur fylgifiskur (Forseti hringir.) sjálfstæðrar peningastefnu, sjálfstæðrar krónu. Við ættum þá kannski að ræða rótina, þ.e. hvort við viljum (Forseti hringir.) halda sjálfstæðri peningastefnu og sjálfstæðri krónu, eða taka upp gjaldgenga nothæfa alþjóðlega mynt.