148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Fram kemur í nokkrum athugasemda við þingmálið að aðilar séu fylgjandi málinu en leggi áherslu á að það sé vel kynnt, að settir séu fjármunir í að upplýsa í hverju þetta felst, að fjallað sé um lýðræðið, um kosningaþátttöku, ábyrgðina og allt það. Ég velti því fyrir mér hvernig það eigi að gerast á þessum stutta tíma þar til á að kjósa. Reyndar er hægt að byrja að kjósa utankjörfundar eftir viku, eitthvað slíkt, þannig að maður veltir fyrir sér hvernig þetta eigi að ganga upp allt saman.

Það er annað sem er aðeins að brjótast um í kollinum á mér af því að ég held að það hafi ekki komið fram, ég hef þá misst af því. Sá sem er orðinn 16 ára getur merkt við hvað hann ætlar að kjósa, hann má kjósa. En má viðkomandi vera á framboðslista? Má viðkomandi starfa í kjördeild, til dæmis? Má viðkomandi fylgjast með kosningum, vera umboðsmaður lista? Ég held ekki. Ekki alla vega eins og ég skil þetta. Það er nefnilega málið að þeir aðilar sem bjóða þetta fram núna eru eingöngu að veita þessu unga fólki leyfi til að setja krossinn.