148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Það er auðvitað stórmál að fá kosningarrétt. Ég man eftir því sjálfur þegar ég fékk að kjósa í fyrsta sinn. Það var vissulega stórmál fyrir allan þennan hóp sem fékk að gera slíkt. Vorum við öll tilbúin til að kjósa? Ekki ætla ég að fullyrða það. Við nokkur, sem höfðum verið á kafi í ungmennastarfinu, vorum hins vegar klárlega tilbúin til þess. Ég veit ekki hvernig á að kynna þetta í grunnskólunum, ég verð bara að segja það alveg eins og er. Þetta er eitt af því sem ég hef ekki hugsað nógu mikið út í, en væntanlega yrðu það sveitarfélögin sem yrðu að finna leið til þess. Myndu þau skipa einhvern erindreka til þess að fara í grunnskólana og kynna og upplýsa og kenna? Yrði haldið námskeið fyrir umsjónarkennarana í skólunum til þess að sjá um þetta? Því er erfitt að svara því af því að þetta hefur ekkert verið undirbúið. Menn hafa ekkert pælt í hvernig eigi að leysa það. Einhverjum finnst það sjálfsagt bara þvaður í manni að hafa áhyggjur af þessu. Það á bara að afhenda ungmennum réttinn og segja: Gjörið svo vel, farið og kjósið. En það þarf að eiga sér stað einhver umræða. Það þarf að eiga sér stað fræðsla. Það þarf að vera einhvers konar vitund hjá fólki um hvað þetta þýðir, að menn geti myndað sér sínar eigin skoðanir.

Það er líka rétt að þetta er stórmál að því leytinu til að þetta stangast á við svo margt annað. Það er ein spurning sem ég las ekki upp áðan sem ég var að velta fyrir mér. Hún kemur í framhaldi af því sem hv. þingmaður nefndi hér varðandi það hvort það stangaðist á t.d. við sjálfræðisaldurinn: Má senda 16 ára ungmenni kosningaáróður? Má senda áróður á viðkomandi eða þarf að senda hann til pabba eða mömmu, einhver bréf: Vinsamlegast kynnið þetta fyrir honum Gunnari Braga litla þannig að hann geti lesið sér til um þetta?