148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að pólitíkin mun alltaf hafa einhver ráð með að ná til fólks. Það skiptir held ég ekki öllu máli á hvaða aldri kjósendur eru, ef menn vilja gera það finna þeir leið til þess. Spurningin er hins vegar hvað gerist á leiðinni, hvort það eru einhvers konar reglur um það, einhver lög eða reglur sem segja hvernig og hvað má gera. Í dag er það einfaldlega þannig að þú mátt ekki nálgast ef ég veit rétt, ég ætla nú að hafa fyrirvara á því, kann þetta ekki allt utanbókar, 16 ára ungling með áróðri. Það verður að fara eftir öðrum leiðum.

Ég segi bara sögu hvernig menn gerðu þetta í gamla daga. Þá man ég nú eftir því að öllum sem voru að fá kosningarrétt í fyrsta sinn var boðið á dansleik og frægar hljómsveitir spiluðu. Þetta var nú lagt af. Það var vitanlega ekki mjög vinsælt að stefna öllum á einhvers konar sveitaball með öllu sem því fylgdi. Þetta var ein leiðin til þess að ná óbeint til fólks. Það vissu allir hverjir héldu þetta ball og þetta skipti máli að sjálfsögðu. Ég veit ekki hvort menn munu fara í, ég segi nú ekki dansleik eða sveitaball en einhverjar slíkar óhefðbundnar aðferðir til að ná athygli. En það í rauninni skiptir ekki öllu máli ef búið er að fræða viðkomandi. Ef viðkomandi veit um hvað stjórnmálin snúast og hvað þau eiga að snúast um, veit hvað er í boði, er búinn að fá uppfræðslu um að hvað þetta þýðir, hvað þessi réttur er mikilvægur, hvað hann er verðmætur og slíkt, hefur maður minni áhyggjur af þessu.

Ég veit ekki hvernig á að uppfræða fólk í grunnskólunum. Við vorum að ræða það áðan. Ég get ekki svarað því og hvort sveitarfélögin með einhverjum hætti geti gert það. Ég veit ekki betur en menn megi ekki nema í einstaka tilvikum og kringum þessar skuggakosningar í framhaldsskólunum fara með áróður inn í skólana til dæmis, eða hvað við köllum þetta, áróður. En það sem upp úr stendur varðandi sveitarfélögin finnst mér í öllu þessu að þau vara við þessu og (Forseti hringir.) í öðru lagi að þingmenn sem vilja að 16 ára fái að kjósa treysta ekki sveitarfélögunum til að ákveða hvað eiga að vera margir í sveitarstjórn.