148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður hefur verið viðriðinn kosningar, kosningaeftirlit, talningar o.s.frv. ansi lengi. Ég er búinn að hlusta eftir því í þessari umræðu hvað nákvæmlega geti farið úrskeiðis en hef bara heyrt útskýrt að eitthvað gæti farið úrskeiðis. Ég veit hins vegar ekki enn hvað nákvæmlega. Ég hef ekki efnislegt innihald fyrir því hvað geti farið úrskeiðis.

Mig langar að leita til svona reynslubolta í kosningum hvað það varðar. Eins og ég sé málið fyrir mér eru sveitarstjórnir og kjörstjórnir að undirbúa kosningar alveg eins og áður, eins og þær hafa alltaf gert. Það eina sem breytist er að röðin verður kannski aðeins lengri. Ég sé ekkert framkvæmdarlegt vandamál við útfærslu kosninganna hvað sveitarstjórnirnar eða kjörstjórnirnar varðar.

Það hefur verið bent á vandamálið með hvernig eigi að fræða krakkana. Þar höfum við hæfniviðmið grunnskólanna sem segja bara að þegar maður er búinn að klára grunnskólann hefur maður hæfni til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Það mál er leyst. Menntamálaráðherra segir okkur að það verði ekkert mál að kynna þeim að þau hafi þennan nýja rétt.

Ég spyr aftur: Hvað höfum við efnislega að óttast?