148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

starfsemi Airbnb á Íslandi.

[15:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Það kann að vera að ég hafi verið óskýr í máli mínu. Ég átti einmitt við að við höfum núna reynsluna í nokkur misseri af eftirliti og skráningu sýslumannsins. Ég tel vel koma til greina að það verði endurskoðað með tilliti til þess hvort þessu eftirliti og skráningum sé betur fyrir komið hjá t.d. sveitarfélögunum sem hafa umfangsmiklu eftirlitshlutverki að gegna á ýmsum sviðum. Það væru kannski einhver samlegðaráhrif fólgin í því að koma eftirliti með þessum gististöðum til sveitarfélaganna. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að það þurfi að tryggja að eftirlitið sé með sem hagkvæmustum hætti og því komið fyrir þannig að mest samlegðaráhrif náist með öðrum störfum.

Ég árétta hins vegar að um starfsemi þessara gistinga fer eftir lögum og reglum sem heyra undir hæstv. ferðamálaráðherra. Löggæslan sinnir að sjálfsögðu eftirliti með þessari (Forseti hringir.) starfsemi eins og annarri og hefur gert það hingað til.