148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

hjúkrunar- og dvalarrými í Stykkishólmi.

[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er ánægjulegt að geta svarað því að ég hef átt samtöl við fleiri en hv. þingmann um nákvæmlega þetta mál, bæði bæjarfulltrúann Lárus Ástmar Hannesson í Stykkishólmi og bæjarstjórann Sturlu Böðvarsson. Þetta er, eins og þingmaðurinn bendir á, rökstutt mál til mjög langs tíma, nákvæmlega þessi nálgun vaknaði raunar árið 2012 ef ég man rétt. Ánægjulegt er frá því að segja að um þetta er búið í nýrri fjármálaáætlun eins og hún er lögð fram fyrir þingið. Ég vænti þess að fjármagnið sem um ræðir sem þarf til að breyta þessum rýmum, þ.e. sjúkrarýmunum, verði til þess að geta síðan ráðist í hjúkrunarrýmahlutann og að hægt verði að fara í þetta af fullum krafti árið 2020 og svo 2021. Málinu á að ljúka þannig að hægt sé að fara strax af stað með hitt vegna þess að um restina verði búið í fjármálaáætlun.

Það er ánægjulegt að geta svarað með afgerandi hætti svona fyrirspurn, en það vill svo til að þarna var um að ræða mjög vel rökstutt mál sem sýnir bæði húsinu sóma og sveitarfélaginu, en kemur ekki síður til móts við aðstöðu þeirra sem þurfa á hjúkrunarrýmum að halda og annarri heilbrigðisþjónustu á svæðinu.