148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[16:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í Vegvísi í ferðaþjónustu, sem er eitt af þeim gögnum sem liggja til grundvallar þessari umræðu, kemur fram að dreifing ferðamanna sé eitt af þeim lykilatriðum eða áherslum í verkefninu sem þarf að stuðla að á næstu fimm árum. Hvers vegna? Vegna þess að fókusinn í þeirri vinnu er til lengri tíma áhersla á sjálfbæra þróun, ef maður fer í skjalinu yfir sjálfbæra þróun. Til hvers? Sú sjálfbæra þróun þarf að byggja á traustum grunni. Til að svo sé mögulegt verður hún að vera, með leyfi forseta, „í góðri sátt við samfélag, náttúru og aðrar atvinnugreinar.“ Þetta er lykilatriði.

Ég skoðaði þetta vel á sínum tíma fyrir kosningarnar 2016 og þá var það þetta; sjálfbær þróun í góðri sátt, sjálfbær ferðaþjónusta í góðri sátt. Það voru lykilatriðin. Eitt af því er dreifing ferðamanna. Hvers vegna? Við förum inn í annað grunngagn sem KPMG gerði um það sem kallað er sviðsmyndar- og áhættugreining um þessa þætti. Þar kemur fram að helstu áhættuþættir ferðaþjónustunnar séu, með leyfi forseta: „Neikvætt viðhorf heimamanna.“

Þá er tekið saman líkurnar á að það gæti gerst annars vegar og hins vegar áhrifin. Ef menn margfalda þessa tvo þætti saman eru þeir komnir með áhættuþáttinn. Það er neikvætt viðhorf heimamanna sem fær áhættuskor 16. Þetta skiptir náttúrlega máli ef mönnum finnst of margir ferðamenn komnir saman á einn stað, þá hefur það þessi neikvæðu áhrif á upplifun heimamanna.

Annað, að mannmergð sé á vinsælum ferðamannastöðum. Það skiptir máli. Ef of margir koma á sama stað er upplifun ferðamanna ekki góð af þessu öllu saman og svo verða náttúrlega náttúruspjöll. Það er lykilatriðið, sem er verið að ræða í þessari umræðu, að dreifa ferðamönnum.

Ég ætla að fara betur yfir það í seinni ræðu og fylgjast með umræðunni, hvernig henni vindur fram. Og nefna hvers vegna þessi sérstaka (Forseti hringir.) umræða er ekki við samgöngumálaráðherra, sem hefur ábyrgð á verkefninu varðandi aðgengi (Forseti hringir.) erlendra ferðamanna að flugvöllum landsins, öðrum (Forseti hringir.) en Keflavíkurflugvelli.