148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[17:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að fara aftur í Vegvísi í ferðaþjónustu því að þar kemur fram hvar ábyrgðin liggur á dreifingu ferðamanna sem er einn af þessum köflum, einn af þessum þáttum sem er talað um að verði að laga til þess að markmiðið náist sem er að þróun ferðaþjónustunnar verði sjálfbær og í sátt við landsmenn, í sátt við aðra atvinnuvegi og í sátt við landið og náttúruna. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Viðhald og uppbygging á innviðum flugsins verði í takt við fjölgun ferðamanna til landsins, bæði í tengslum við flug erlendis frá og innanlandsflug. Metið skuli hvernig best megi, á sjálfbæran hátt, fjölga alþjóðlegum fluggáttum til landsins og tryggja að varaflugvellir alþjóðaflugs séu í góðu ásigkomulagi.“

Á síðu 25 kemur fram að þetta verkefni er á ábyrgð innanríkisráðherra þá, en hlýtur í dag, fyrst verkefni innanríkisráðherra hafa dreifst á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dómsmálaráðherra, að vera hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ég var að reyna að grennslast fyrir um hver væri ábyrgur fyrir þessu og það er sá ráðherra. Iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er aftur á móti ábyrgur fyrir hvað þetta varðar, þ.e. Vegvísinn, að kynna Ísland, ferðaþjónustulandið allt árið annars vegar og í öllum landshlutum. Þannig að kynningarstarfið er þar en ábyrgð á þessu sérstaka viðfangsefni þessarar sérstöku umræðu er hjá sveitarstjórnar- og samgönguráðherra. Við þurfum að fá þær upplýsingar frá honum eða kannski getur ráðherra eða málshefjanda þessarar sérstöku umræðu farið nánar út í það af því að við þurfum að fá það skýrt fram frá þeim sem er ábyrgur fyrir verkefninu hvernig því miðar áfram og hvernig sá ráðherra hyggst ná því fram.

Svo vil ég taka undir með öðrum þingmanni um að við þurfum að skoða fjármálaáætlunina, hvernig þetta lítur út þar, því að ef peningar fylgja ekki þá verður lítið úr þessu.