148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna.

305. mál
[17:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Við segjum gjarnan að ferðaþjónustan sé á krossgötum. Ég reikna með því að við séum sammála um það, hæstv. ráðherra og ég. Það hægir á vextinum. Túristaflóran breytist. Álag á landið, á samfélag og náttúru er farið að reyna verulega á, sums staðar að minnsta kosti. Þolmörkum er náð sums staðar miðað við innviði. Allt kallar það á stýringu líkt og við allar aðrar auðlindanytjar. Breytingar eru nauðsynlegar á mörgum sviðum atvinnuvegarins. Ég ætla að nefna fjögur nokkuð praktísk atriði við ráðherrann og fá umræðu um þau.

Í fyrsta lagi er það fjölgun landvarða og um leið að tryggja hátt menntunarstig þeirra. Þetta á við jafnt sumar sem vetur. Það þarf að fara eftir greiningu á þörfum eftir svæðum til að stýra nauðsynlegum fjölda, en ég vil gjarnan heyra skoðun ráðherra á því.

Í öðru lagi er það löggilding leiðsögumannsstarfsins sem Samtök leiðsögumanna hvetja til og ég tel tíma kominn til að færa í verk og þá um leið skyldu til að hafa slíka leiðsögumenn í tilteknum ferðum. Við getum talað um skoðunarferðir, hópa, rútuferðir, sem við köllum gjarnan, tilteknar fjalla- og jöklaferðir, sem ég þekki mætavel, og fleira mætti nefna.

Í þriðja lagi hef ég talað fyrir því oftar en einu sinni að hugað sé að því að hafa lögreglumenn sem eru menntaðir landverðir eða öfugt, landverði sem eru menntaðir lögreglumenn, hvernig sem menn vilja hafa það, þ.e. að sameina þessi hlutverk í tiltölulega litlum hópi sem sinnir svæðum utan alfaraleiða. Það hefur margoft sýnt sig að það hefur ekki gengið nógu vel á mörgum stöðum þar sem landverðir eru, en þeir hafa tiltölulega takmarkaða heimild til að hefta för fólks eða annað slíkt eða skipa fólki beinlínis fyrir. Lögreglan hefur í litlum mæli verið á hálendinu. Fyrir það fyrsta eru lögreglumenn of fáir og í öðru lagi eru þeir ekki menntaðir í því tiltekna fagi sem við köllum landvörslu.

Í fjórða lagi þá er það álagið sem orðið er á björgunarsveitir landsins. Þetta er sjálfboðavinna eins og við vitum. Þetta eru um 100 sveitir, 18.000 manns, sem vinna óeigingjarnt starf, mjög gott starf. En er ekki kominn tími til að við endurskipuleggjum þetta þannig að hluti af þessu liði, lítill hluti vissulega, verði einfaldlega launaðir björgunarsveitarmenn? Þeir geta að einhverju leyti verið landverðir líka, en það yrðu sérhæfðir björgunarsveitarmenn sem eru í launuðum sveitum sem sinna fyrstu útköllum og létta á sjálfboðaliðssveitunum.