148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna.

305. mál
[17:21]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina um viðbrögð við fjölgun ferðamanna. Svarið við fyrstu spurningunni um hvort ég telji vænlegt að fjölga landvörðum er einfalt: Já, ég tel að reynslan sýni að slík fjölgun sé skilvirk og góð leið til þess að bregðast við þessum mikilvægu þáttum í tengslum við ferðaþjónustu.

Landverðir gegna mikilvægu hlutverki og geta líka gegnt mjög fjölbreyttu hlutverki. Þannig eru þeir lykilaðilar í því að fræða ferðamenn um öryggismál og rétta umgengni við landið okkar og náttúruna. Með fjölgun þeirra er því hægt að bregðast við álagi á ferðamannastöðum á skjótvirkan hátt.

Ríkisstjórnin lagði í fyrra til viðbótarfjármagn til landvörslu og hefur gert ráðstafanir til að gera slíkt hið sama á næstu árum. Nánar tiltekið er í þriggja ára verkefnaáætlun landsáætlunar um uppbyggingu innviða 2018–2020 gert ráð fyrir fjárveitingum til landvörslu sem nema samtals 320 millj. kr., til viðbótar við þá landvörslu sem fyrir er á vegum stofnana ríkisins. Fjölgun landvarða hefur því verið sett í forgang af hálfu stjórnvalda.

Varðandi aðra spurninguna þá svaraði ég á síðasta kjörtímabili fyrirspurn sem fjallaði m.a. um afstöðu mína til lögverndunar á starfsheiti leiðsögumanna. Þar svaraði ég því til að ég teldi það ekki rétt á þessu stigi. Afstaða mín hefur ekki breyst. Hæfni og gæði í ferðaþjónustu eru eitt af þeim leiðarljósum sem við vinnum eftir við framþróun ferðaþjónustunnar hér á landi. En hafa verður í huga að lögverndun starfsheitis leiðsögumanna myndi leiða til þess að ófaglærðir einstaklingar, sumir með áratugareynslu í leiðsögn, aðrir sem þekkja sitt land betur en flestir aðrir, gætu ekki kallað sig leiðsögumenn. Skoða mætti hvort hægt væri að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með lögverndun með öðrum hætti, svo sem á grunni gæðakerfisins Vakans. Þetta væri t.d. hægt að gera með samningum við fyrirtæki í ferðaþjónustu um að þau noti faglærða leiðsögumenn og með kynningum og auglýsingum þar sem hvatt er til að notaðir séu faglærðir leiðsögumenn. Þá mætti einnig hugsa sér að þeir sem hafa haft leiðsögu ferðamanna hérlendis að aðalstarfi í tiltekinn tíma geti aflað sér réttinda, enda sýni þeir með hæfniprófi að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ljúka leiðsögunámi. Aðalatriðið í mínum huga er að málefni leiðsögumanna séu í stöðugri skoðun með hliðsjón af þróun ferðaþjónustunnar.

Þriðja spurningin um aukið gæsluhlutverk landvarða er álitamál sem snertir á mörgum þáttum sem skarast við valdsvið bæði umhverfis- og auðlindaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Málefni tengd landvörslu sem slíkri er á borði umhverfis- og auðlindaráðherra. Mér er kunnugt um að til meðferðar í því ráðuneyti er ný reglugerð um landverði. Embætti lögreglustjórans á Suðurlandi og embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hafa til þessa sinnt hálendiseftirliti og eftirliti á fjölförnum ferðamannastöðum. Að öðru leyti snýst málið m.a. um handhöfn lögregluvalds og ákvarðanir um löggæslu eru því almennt teknar hjá dómsmálaráðuneyti í samráði við handhafa lögregluvalds.

Varðandi fjórðu spurninguna um björgunarsveitir þá skilst mér, samkvæmt upplýsingum mínum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg á fundum með þeim, að ekki sé um að ræða ofálag á björgunarsveitirnar vegna erlendra ferðamanna. Þá vil ég taka fram að fulltrúar björgunarsveitanna hafa ekki óskað eftir að hluti þeirra verði gerður að opinberum starfsmönnum. Ef slík ósk berst á einhverjum tímapunkti mun ekki standa á mér að skoða það með opnum huga með hvað hætti best verði haldið á starfseminni. En að svo komnu máli tel ég mikilvægt að taka mið af óskum björgunarsveitanna um fyrirkomulag þessara mála.

Að því sögðu legg ég jafnframt áherslu á að það er mikilvægt að þessi mál séu í stöðugri skoðun með það að markmiði að efla og bæta þá þætti sem snúa að öryggismálum, enda eru þau eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda þegar kemur að ferðaþjónustu og uppbyggingu hennar hér á landi.

Í þessu sambandi langar mig einnig að geta þess að í frumvarpi til laga um Ferðamálastofu sem ég hef nýverið lagt fram er í 10. gr. gert ráð fyrir skyldu hvers þess sem hyggst bjóða upp á eða selja skipulagðar ferðir hér á landi til að útbúa skriflega öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar óháð því hvort viðkomandi selur ferðina beint til ferðamanns eða með milligöngu annars aðila. Öryggisáætlanir skulu ávallt vera til skriflega á bæði íslensku og ensku. Með lögbindingu gerðar öryggisáætlunar er ætlunin að auka öryggi ferðamanna, en slysahætta eykst með auknum fjölda ferðamanna eins og þekkt er. Skyldan hefur í för með sér að ferðaþjónustuaðilar þurfa fyrir fram að hafa lagt mat á þá áhættu sem í ferðinni felst til að geta brugðist rétt við erfiðum aðstæðum sem upp kunna að koma. Gerð öryggisáætlunar og mat á áhættu af ferð eykur þannig sjálfstæði ferðaþjónustuaðila og eykur jafnframt þær kröfur sem gerðar eru til hæfni þeirra í starfi.