148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna.

305. mál
[17:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina er tengist ferðamálum og stýringu á aðsókn ferðamanna á viðkvæm náttúrusvæði hér á landi. Mig langar samt að halda hér ákveðnu sjónarhorni á lofti þegar kemur að fjölgun landvarða til að auka öryggi, fræðslu og umhverfisvernd. Ég tel sannarlega að styrkja beri stjórnun náttúruverndarsvæða með því að styrkja landvörslu og fjölga landvörðum. Ég held að það sé eitt af lykilatriðunum í aðgangsstýringunni sem við höfum svo oft rætt um í þessum þingsal og víðar.

Við höfum rætt annað mál er kemur inn á þessa fyrirspurn hér, þ.e. fjölgun lögreglumanna. Við vitum að fjölgun lögreglumanna hefur verið ábótavant um margra ára skeið og ég geld varhuga við því að við séum að slá saman tveimur hlutum, (Forseti hringir.) annars vegar því að styrkja lögregluna og fjölga lögreglumönnum, og hins vegar því að tengja landverði og landvörslu (Forseti hringir.) við störf lögreglumanna. Ég tel að þetta séu tveir aðskildir hlutir og að við eigum að einbeita okkur að því annars vegar að (Forseti hringir.) styrkja lögregluna, efla hana og auka þá fjármuni sem renna til hennar, og hins vegar að styrkja landvörslu, en ekki að blanda þessu tvennu saman.