148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna.

305. mál
[17:37]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég ætlaði að koma inn á örfá atriði hérna í lokin. Ég vil bara draga það fram, þrátt fyrir að það hafi oft verið gert, að við höfum auðvitað eflt löggæslu í landinu verulega síðastliðin ár en við erum enn þá á þeirri vegferð.

Vegna umræðunnar um björgunarsveitirnar og ofálag þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta er ekki endilega vegna erlendra ferðamanna. Ég var að vísa beint til þess og dró þetta sérstaklega fram vegna þess að þetta kom mér á óvart. Miðað við umræðuna þá hefur maður einhvern veginn haft á tilfinningunni að álag á björgunarsveitirnar sé sérstaklega vegna ferðamanna, en a.m.k. samkvæmt þeim sem ég hef rætt við þá virðist það ekki vera, heldur eru það einmitt eins og hv. þingmaður kemur inn á öll hin verkefnin, veturinn og þau verkefni og bara við sjálf sem erum að gera alls konar hluti og koma okkur í vandræði.

Ég er því alveg sammála hv. þingmanni um að þetta samtal við björgunarsveitirnar skiptir máli. Ég er kannski hér að vísa sérstaklega til þeirra sem eru í forsvari fyrir þær, en mér finnst lykilatriði að allar slíkar breytingar eða umræða um þær séu unnar með björgunarsveitunum sjálfum vegna þess að þetta er auðvitað sjálfsprottin starfsemi öllsömul og á algjörlega að vera á þeirra forsendum. En umræðan um álag á atvinnuveitendur og annað skiptir auðvitað líka máli og maður þarf að hlusta eftir því .

Svo til að ítreka aftur þetta mál varðandi landverðina þá finnst mér sú leið ótrúlega öflug vegna þess að maður slær svo margar flugur í því höggi. Þetta er skilvirk leið. Þessu fylgir fræðsla frá landvörðum til ferðamanna, aukið öryggi, meiri gæði og betri upplifun ferðamanna þegar þeir skoða náttúru landsins. Þess vegna finnst mér þetta jákvætt (Forseti hringir.) og ég er ánægð með þann forgang sem hefur verið í því að efla landvörslu.