148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

undanþágur frá banni við hergagnaflutningum.

343. mál
[18:26]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um stefnu hæstv. utanríkisráðherra þegar kemur að vopnaflutningum og framkvæmd 78. gr. laga um loftferðir.

Ég vil taka fram að ég hef sett af stað skýrslubeiðni um framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga er varða flutninga á vopnum og vænti þess að þar komi fram þær upplýsingar sem við þurfum á að halda til að velta við öllum þeim steinum í þessu máli, okkur öllum til heilla, og sömuleiðis þegar kemur að skuldbindingum okkar á alþjóðavísu er varðar leyfisveitingar eða undanþágur vegna vopnaflutninga.

Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þegar kemur að því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir fordæmingar hans vegna nýrra árása í Sýrlandi þar sem sterkur grunur leikur á að efnavopnum hafi verið beitt. Þetta tel ég vera af hinu góða og ég vænti þess að sjá meira af þeim toga úr hans ranni. Og sömuleiðis að hér verði skýr stefna og sýn, bæði ráðherrans og ríkisstjórnarinnar, á það að fordæma með öllu flutning, sölu og hvers konar meðhöndlun vopna (Forseti hringir.) og þar með að íslenska ríkið og ríkisstjórnin standi við sínar alþjóðlegu skuldbindingar, (Forseti hringir.) ég ber von í brjósti um það, og að í þessu máli göngum við á undan með (Forseti hringir.) því að sýna ábyrgð í verki og (Forseti hringir.) standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar er varða þetta.

(Forseti (BN): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)