148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera hér örstutt að umtalsefni EES-samninginn og þá staðreynd að í dag liggur hér fyrir á málaskránni hjá okkur beiðni um skýrslu um kosti og galla þessa samnings. Ég held að það sé mjög mikilvægt að Íslendingar velti fyrir sér framhaldinu á EES-samningnum, ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem eru augljóslega að verða. Þegar Bretar fara úr Evrópusambandinu, þegar einn okkar helsti markaðsaðili, ef ég má orða það þannig, helsti viðskiptavinur innan þessa samnings hverfur á braut hljótum við að þurfa að taka þennan samning til endurskoðunar, í það minnsta velta fyrir okkur hver framtíð hans verður. Auðvitað eru margir aðrir hlutar í EES-samningnum eða tengdir honum sem eru ekki beint tengdir viðskiptum.

Á sama tíma erum við í utanríkismálanefnd að fara að fjalla í fyrramálið um framhald á þessum svokallaða þriðja orkupakka, þ.e. orkutilskipuninni frá Evrópusambandinu, þar sem gera má ráð fyrir að verði töluverðar umræður um framtíð þeirra mála.

Fram hefur komið á undanförnum árum að efasemdir sumra okkar mest metnu lærdómsmanna í lögum um að við getum haldið áfram að innleiða hér tilskipanir blint af því að við séum búin að afsala svo og svo miklu af fullveldi landsins, þannig að við hljótum að leggja áherslu á að staðan sé metin, þ.e. að farið sé að meta kosti og galla þessa samnings og hugsanlega að meta hver ávinningur okkar af honum er til framtíðar.

Ég hef sjálfur sem alþingismaður frá 2009 fjallað um þennan samning og einnig að sjálfsögðu borið ábyrgð sem ráðherra á ýmsum tilskipunum sem innleiddar hafa verið. Það breytir ekki þeirri skoðun minni að við hljótum að þurfa að meta stöðuna, ekki síst í ljósi þess að Bretar, ein okkar helsta viðskiptaþjóð, eru að hverfa út úr Evrópusambandinu. Þess vegna hlýtur þessi samningur að taka breytingum.