148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða kjör og starfsumhverfi ljósmæðra, starfsstéttar sem er eina kvennastéttin í landinu sem þjónustar eingöngu konur, en líka börn og fjölskyldur á þeirra persónulegustu og viðkvæmustu stundum.

Það er hryggilegt að horfa upp á þrautagöngu ljósmæðra undanfarin ár þegar kemur að kjarasamningaviðræðum við ríkið. Í þessari lotu nú hafa þær beðið eftir kjarasamningum í hálft ár. Síðasti samningafundur fyrir tæpri viku endaði með hvelli. Í dag sendi Félag ljósmæðra frá sér yfirlýsingu þar sem þær segja m.a., með leyfi forseta:

„Það blasir við öllum sem það vilja sjá að fullkomlega óeðlilegt er að ljósmæður lækki í launum við það að bæta við sig tveggja ára ströngu háskólanámi ofan á hjúkrunarfræðinám. Próf í hjúkrunarfræði er meðal inntökuskilyrða í greinina, en ákveði hjúkrunarfræðingur að bæta við sig prófi í ljósmóðurfræði gæti viðkomandi þurft að taka á sig launalækkun í starfi ljósmóður.“

Það virðist því vera þannig, herra forseti, að konum í kvennastétt sé refsað af hálfu hins opinbera fyrir að bæta við sig námi. Hversu langt er seilst í því að spara ríkinu krónu með því að láta kvennastétt enn eitt skiptið taka á sig skellinn. Ljósmæður uppskera ekki laun í samræmi við erfiði sitt. Ljósmæður eru orðnar langeygar eftir viðurkenningu á sínum mikilvægu störfum, enda ekki að furða því að einungis eru tæp tvö ár síðan þær fóru í 10 vikna verkfall. Þær unnu þó vinnuna sína í því verkfalli en var neitað um greidd laun fyrir þá vinnu. Í staðinn fyrir að fara í verkfall núna hafa ljósmæður boðað uppsagnir og eru þær nú orðnar um 30.

Virðulegi forseti. Ég trúi því varla að við séum í enn eitt skiptið að horfa upp á aðför að kvennastétt í heilbrigðiskerfinu. Ég trúi því varla að við séum að sjá í enn eitt skiptið skýrasta form kerfislægs kynjamisréttis í samfélagi okkar, samfélagi sem ber sér stöðugt á brjóst fyrir að vera meistarasamfélag þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Það er brýnt að fjármálaráðherra, sem ber ábyrgð á kjaraviðræðum við ljósmæður fyrir hönd íslenska ríkisins, gangi til samninga við ljósmæður hið fyrsta og að heilbrigðisráðherra, sem hefur borið hag kvennastétta fyrir brjósti, (Forseti hringir.) stuðli að lausn mála þannig að ljósmæður gangi sáttar frá samningaborðinu. Þær eiga það sannarlega skilið frá okkur öllum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)