148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur er fulltrúi flokks sem lætur sig kjör kvennastétta miklu varða og ég veit að það á við um marga þá sem sitja í þessum sal. Við vorum nokkur úr þingflokki Viðreisnar og annarra flokka sem lögðum fram þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta innan opinbera geirans, enda er slíkt átak lykilatriði til að hægt sé að manna þá sókn sem hefur verið boðuð af stjórnvöldum í mennta- og velferðarmálum.

Framganga hæstv. heilbrigðisráðherra í þessum ræðustól hér í gær er hins vegar vísbending um að við ættum kannski að bretta upp ermarnar og fara að spila vörn vegna þess að þar lét hæstv. ráðherra þau orð falla, eftir að hafa ávítað þann hv. þingmann sem léði þessu máls, fyrir það að viðra yfir höfuð áhyggjur af þeirri stöðu mála sem kjaradeila ljósmæðra er komin í, að málið væri í hnút vegna vals ljósmæðra á kjarafélagi.

Það er rétt að rifja upp að ljósmæður tilheyra Ljósmæðrafélagi Íslands sem er, eins og kom fram í ræðustól áðan, aldargamalt félag, nokkrum áratugum eldra en þær forkröfur sem nú eru uppi, að ljósmæður skuli einnig vera hjúkrunarfræðimenntaðar.

Ég veit ekki og mér stendur reyndar slétt á sama um það hvort þessi orð féllu vegna þess að hæstv. ráðherra hefur einhverja drauma um eitt ríkisrekið stéttarfélag eða hvort hún er hreinlega komin upp að vegg í málinu, en ég hvet hana til að fara aftur í sóknina í þessu máli vegna þess að ljósmæður eiga það inni hjá okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)