148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Meðan ég fagna því að loksins eru komin öll þessi stjórnarþingmál sem við erum búin að vera að bíða eftir eða alla vega hluti af þeim, þingmálaskráin var aðeins lengri, verð ég að gera athugasemd við það að þeim sé öllum hrúgað á okkur með svona stuttum fyrirvara. Á sama hátt og það gengur ekki að málin komi seint fram gengur ekki að hrúga þeim síðan á okkur á sama tíma. Það er jafn slæmt.

Þetta kemur á þeim tíma þar sem við erum að fara yfir fjármálaáætlunina sem kom fram með um það bil viku fyrirvara fyrir 1. umr. En það eru villur í henni og það þarf að prenta hana upp aftur og okkur er ekki sagt hvaða villur er verið að laga þannig að við eigum í dálitlum vandræðum. Á ég að lesa fjármálaáætlunina eða ekki? Nú erum við að undirbúa okkur fyrir eitt stærsta mál ríkisstjórnarinnar samkvæmt hæstv. forsætisráðherra og fáum þá þessa fötu í hausinn með 20 málum eða eitthvað svoleiðis sem við eigum líka að fara að undirbúa okkur fyrir og fjalla um og taka þátt í. Þetta tvennt passar bara ekki saman. Forseti verður að huga að því (Forseti hringir.) að vinna okkar á að vera fagleg, á að vera vönduð. Þetta passar ekki alveg inn í þá mynd.