148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Það er gömul saga og ný að þegar menn vilja breyta einhverju viðvarandi ástandi tekur það töluvert langan tíma. Það þarf meira til en einbeittan vilja, jafnvel alls hópsins sem vill breyta hlutunum, það þarf að ganga í breytingarnar. Þrátt fyrir það sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna — hér eru eingöngu stjórnarandstöðuþingmenn að ræða málin — veit ég að þetta brennur á okkur öllum. Það brennur á okkur öllum að þetta er það mál sem þarf að kippa í liðinn til að efla hag, vægi og virðingu Alþingis. Þetta er ekkert sérstaklega flókið, það getur verið ákveðið úrlausnarefni og stundum eru ákveðnar ástæður sem liggja að baki því að dagskrá kemur seint fram, en þessu er hægt að breyta og þetta er hægt að laga. Það er eitt sem víst er, við eflum ekki virðingu og veg þingsins ef við lögum þetta ekki. Við verðum að geta unnið vinnuna okkar. Þetta snýst ekki bara um okkur, þetta snýst um almenning, vegna þess að það er almenningur sem situr uppi með þau lög sem eru samþykkt hér eða hafnað.