148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegur forseti. Þetta setur málin óneitanlega í ákveðið samhengi og einhvern veginn væri ég alveg til í að taka frekari umræðu um þetta málefni sem var kallað ofan af svölunum, en við skulum halda okkur við dagskrána. Mig langaði eiginlega bara fyrir mitt leyti að klykkja út um þetta mál í tengslum við það sem hv. þingmaður og þingflokksformaður Framsóknar, Þórunn Egilsdóttir, talaði um áðan, að þetta hefði verið til umræðu á þingflokksformannafundi með forseta. Það er rétt að vissu leyti, það sem við erum að tala um hérna er að við erum að kalla eftir því að við þurfum ekki að leggja í púsl og eiginlega orðaleiki til að átta okkur á því hvað er á dagskrá. Ég legg bara til hér og mun gera það líka á næsta þingflokksformannafundi að þar verði málin sett á dagskrá þess hóps og forseti fari í það með þingflokksformönnum á mánudagsfundunum að leggja línurnar fyrir vikuna. Ef við getum við það ekki getum við ekki ætlast til að þingmennirnir geri það sjálfir, er það nokkuð?