148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

kostir og gallar aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

478. mál
[14:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Bara stutt um þetta, ég fagna því að þessi beiðni um skýrslu er komin fram og mun styðja hana. Ég veit ekki hvort ég á að kalla það ósamræmi eða bara eins og gengur og gerist að menn leggja mismunandi skilning í orð en mig langaði til að vekja athygli á því hvernig ég skil það og óska þess að sá skilningur fari áfram. Skýrslubeiðnin sjálf felur í sér að þess sé óskað að Alþingi feli utanríkisráðherra að flytja skýrslu um kosti og galla aðildar Íslands að EES-samningi og áhrif hans á íslenskt samfélag.

Ekki er nánar útlistað hver á að vinna þessa vinnu. Síðan er vísað í norsku fyrirmyndina. Á vegum norska utanríkisráðuneytisins var skipaður starfshópur valinkunnra sérfræðinga. Ég stend bara hér og nota mínar sekúndur auðmjúklega til að fara þess á leit við utanríkisráðherra, sem ekki situr hér en heyrir vonandi eða fréttir af beiðninni, að hæstv. ráðherra og ráðuneytið feli slíkum hópi valinkunnra sérfræðinga að framkvæma þessa skýrslu (Forseti hringir.) ef vel á að vera. Það er mjög mikilvægt að við fáum faglegt, hlutlaust mat á þessari stöðu.