148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

fjármálafyrirtæki.

422. mál
[14:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, um endurbótaáætlun, tímanleg inngrip, eftirlit á samstæðugrunni, eftirlitsheimildir o.fl. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki sem miða að því að innleiða í íslenskan rétt hluta af tilskipun 2014/59/ESB, um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, eða BRRD-tilskipuninni svokölluðu. Einnig eru lagðar til breytingar á sömu lögum sem byggja á efni tilskipunar 2013/36/ESB, um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim, og efni reglugerðar ESB nr. 575/2013, um varfærniskröfur vegna starfsemi lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja, en þar er um að ræða hið svokallaða CRD IV og CRR-regluverk.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að taka upp í íslenskan rétt CRD IV og CRR-regluverkið. Það innleiðir Basel III staðalinn í Evrópurétt. Fjöldi breytinga hefur verið gerður á lögum um fjármálafyrirtæki undanfarin ár sem grundvallast á regluverkinu. Meginhluti þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpi þessu, og byggja á CRD IV/CRR-regluverkinu, tengjast samspili við BRRD-tilskipunina vegna ákvæða um samstæður fjármálafyrirtækja.

Sú tilskipun kveður á um viðbrögð og aðgerðir til að takast á við erfiðleika eða áföll í rekstri fjármálafyrirtækja. Þá kveður tilskipunin á um hvernig lágmarka megi neikvæðar afleiðingar rekstrarerfiðleika eða fjármálaáfalla ef til þeirra kemur. Tilskipunin leggur þannig bæði ákveðnar skyldur á fjármálafyrirtæki til að undirbúa viðbrögð við rekstrarerfiðleikum og veitir stjórnvöldum heimildir til inngripa í rekstur fyrirtækjanna lendi þau í erfiðleikum. Ef inngripsheimildum er beitt mælir tilskipunin fyrir um aðgerðir og úrræði sem stjórnvöld geta gripið til í þeim tilgangi að greiða úr rekstrarerfiðleikum fjármálafyrirtækja. Markmið BRRD-tilskipunarinnar er að vernda fjármálastöðugleika, tryggja áframhaldandi rekstur kerfislega mikilvægrar starfsemi fyrirtækja, draga úr líkum á að ráðstafa þurfi fé úr ríkissjóði vegna tjóns sem fjármálafyrirtæki geta valdið með rekstrarerfiðleikum sínum og loks að vernda bæði tryggðar innstæður og fjármuni viðskiptamanna fjármálafyrirtækis.

Helstu breytingar sem frumvarpið mælir fyrir um eru eftirfarandi:

1. Lánastofnunum, stærri verðbréfafyrirtækjum og samstæðum fyrirtækjanna verður gert að útbúa og uppfæra endurbótaáætlun. Áætlunin skal fjalla um viðbrögð fyrirtækjanna við rekstrarerfiðleikum, þar með talið þær aðgerðir sem hægt er að grípa til, verklag sem fyrirtæki skal viðhafa, sviðsmyndir og vísa sem aðstoða fyrirtæki við að gera sér grein fyrir því hvenær og til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Endurbótaáætlun skal afhent Fjármálaeftirlitinu sem leggur mat á það hvort áætlunin sé fullnægjandi. Fyrirtæki skal sjálft virkja endurbótaáætlun sína komi upp rekstrarerfiðleikar en Fjármálaeftirlitið getur einnig krafið fyrirtæki um að hrinda tilteknum aðgerðum áætlunarinnar í framkvæmd ef rekstrarerfiðleikar eru til staðar.

2. Lagðar eru til nýjar valdheimildir Fjármálaeftirlitsins, svonefnd tímanleg inngrip, sem hægt verður að beita þegar lánastofnun eða verðbréfafyrirtæki brýtur gegn lögum um fjármálafyrirtæki eða ef fjárhagsstaða fyrirtækisins er þannig að hún teljist versnandi. Beiti Fjármálaeftirlitið tímanlegum inngripum gagnvart fjármálafyrirtæki getur það valið úr fjölmörgum aðgerðum sem hafa þann tilgang að rétta af fjárhagslega stöðu fyrirtækisins. Beita skal tímanlegum inngripum áður en í óefni er komið hjá fjármálafyrirtæki og skulu inngripin því hafa annan tilgang en að vera undanfari þess að fyrirtæki sé leyst upp, t.d. með slitameðferð eða samruna þess við annað fyrirtæki.

3. Frumvarpið felur í sér nýjar heimildir fjármálafyrirtækja til að gera samning um fjárstuðning innan samstæðunnar. Um er að ræða heimild en ekki skyldu sem félög innan samstæðu, eitt eða fleiri, geta nýtt sér í þeim tilgangi að aðstoða félög innan samstæðu sem lenda í rekstrarerfiðleikum. Ákveði félög að gera slíkan samning er samningurinn háður ýmsum takmörkunum sem settar eru í öryggisskyni líkt og fyrirframsamþykki hluthafa, ákvörðun stjórnar fyrirtækis og staðfesting Fjármálaeftirlitsins.

4. Lagðar eru til nánari reglur um eftirlit á samstæðugrunni en frumvarpið miðar að því að styrkja eftirlit og eftirlitsheimildir með samstæðu fjármálafyrirtækis, m.a. með eignarhaldsfélögum sem teljast móðurfélög fjármálafyrirtækja og tengdum aðilum. Frumvarpið mælir einnig fyrir um heimild Fjármálaeftirlitsins til að eiga í víðtæku samstarfi við aðra eftirlitsaðila vegna eftirlits á samstæðugrunni. Eftirlit á samstæðugrunni er mikilvægur þáttur í fjármálaeftirliti en á grundvelli slíks eftirlits er ekki einungis horft til starfsemi einstaks fjármálafyrirtækis heldur einnig tengdra félaga, eigna þeirra og skulda og áhrifa þeirra á fjármálafyrirtækið.

5. Frumvarpið mælir fyrir um fleiri breytingar, t.d. heimild til að setja reglugerð varðandi stórar áhættuskuldbindingar, frekari kröfur á innri eftirlitseiningu fjármálafyrirtækis, tilkynningu stjórnar eða framkvæmdastjóra vegna brots á varfærniskröfum, frekari reglur varðandi varfærniskröfur á samstæðugrunni, kröfur um að tilteknum fjármálafyrirtækjum beri að halda skrá yfir fjárhagslega samninga og hafa þá til reiðu ef eftir því er kallað og breytingu á reglugerðarheimild til að tryggja lagastoð fyrir seinni breytingum sem gerðar hafa verið á svonefndri CRR-reglugerð eftir að hún tók gildi.

Virðulegi forseti. Frumvarpið mælir fyrir um fjölda breytinga sem miða m.a. að því að auka áhættumeðvitund í starfsemi fjármálafyrirtækja þannig að þau verði betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika í rekstri.

Ég tel rétt að minnast á það hér að BRRD-tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn hinn 9. febrúar sl. og að í Noregi hefur þegar verið lagt fram lagafrumvarp sem innleiðir tilskipunina en í Liechtenstein er innleiðingunni lokið. Þá hafa öll aðildarríki Evrópusambandsins nú þegar innleitt regluverkið. Æskilegt er að það dragist ekki að hefja innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi og í frumvarpi þessu er lagt til að fyrri áfangi innleiðingar fari fram fyrir sumarið en áformað er að ljúka innleiðingunni að fullu með framlagningu annars lagafrumvarps sem fram kemur næsta vetur.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.