148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

fjármálafyrirtæki.

422. mál
[15:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið heils hugar undir orð hæstv. fjármálaráðherra. Í sjálfu sér er það töluvert mikið afrek, þegar horft er til baka, hvernig til tókst við þau fordæmalausu inngrip í bankakerfið sem grípa þufti til hér haustið 2008. Þegar horft er til þess skamma tíma sem var til undirbúnings og framkvæmda á þeim aðgerðum þá held ég að við getum horft gríðarlega stolt yfir farinn veg og sagt: Þetta tókst ótrúlega vel miðað við gríðarlega erfiðar aðstæður. Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að það er að mörgu leyti ánægjulegt að sjá að hér er kannski verið að festa í sessi sambærilegt regluverk til frambúðar — og ekki aðeins hér heldur á Evrópumarkaðnum öllum — sem á að virka með þeim hætti sem nauðsynlegt er, þ.e. að það sé eigendum þessara mikilvægu fjármálafyrirtækja til aðvörunar um að gæta að sér í rekstri sínum, að það verði þá sá hópur eigenda og mögulega kröfuhafa sem helst líði fyrir ef óvarlega er farið í fjármálakerfinu að nýju.

Í seinni spurningu hefði ég viljað spyrja hæstv. ráðherra út í annað atriði. Nú er að störfum nefnd um hvítbók fjármálakerfisins í takt við stefnu þessarar ríkisstjórnar. Við höfum unnið gríðarlega mikið starf í að endurskipuleggja fjármálakerfið hér heima fyrir nú þegar. Við höfum verið að innleiða töluvert mikið magn evrópskra reglugerða. Hér er önnur af tveimur lykilreglugerðum sem verið er að innleiða nú á næstu vikum eða mánuðum til að ljúka þeirri endurskipulagningarvinnu. Með það í huga að ósk innlenda fjármálakerfisins hefur fyrst og fremst verið sú að fá að starfa við sambærileg skilyrði og keppinautar þessara fyrirtækja annars staðar í álfunni spyr ég: Stendur fyrir dyrum að ganga mikið lengra í þessari hvítbókarvinnu en þegar er verið að ganga, þ.e. á að fara að setja íslenskum (Forseti hringir.) fjármálafyrirtækjum séríslensk starfsskilyrði? Eða munum við fyrst og fremst ganga út frá því að tryggja þeim sambærilegt samkeppnis- og rekstrarumhverfi og tíðkast annars staðar í álfunni?