148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

fjármálafyrirtæki.

422. mál
[15:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég leyfi mér að lesa í orð hv. þingmanns ætla ég að lýsa mig sammála því að við þurfum að tryggja að samkeppnisumhverfið sé sambærilegt þegar kemur að regluverkinu. Það sem helst stendur upp úr í augnablikinu í því efni er bankaskatturinn sem við segjum í fjármálaáætluninni að til standi að lækka á áætlunartímabilinu, en hann þykir mjög óvanalegur og er þarna tæp 0,5% og leggst á alla skuldahliðina umfram 50 milljarða. Ég held að við séum ekki með neitt einstakt dæmi sem gerir samkeppnisstöðuna með lögum og reglum erfiðari en akkúrat sá skattur.

Að öðru leyti eru ekki í tengslum við hvítbókarvinnuna uppi hugmyndir um að ganga lengra eins og ég legg þetta upp fyrir mitt leyti. Við leggjum inn í vinnuna niðurstöðu annarrar nefndar sem fjallaði sérstaklega um viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Ég held að við getum alveg unnið með niðurstöðu í því efni sem myndi ekki hindra mjög samkeppnislega stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja sem markast í dag að langmestu leyti af stærð efnahagsins og lánakjörum.

Mig langar til að nota þetta síðara andsvar hér til þess að segja að ég óttast það aðeins að við höfum eftir hrunið beint sjónum okkar of rækilega að fjármálafyrirtækjunum. Við erum enn tíu árum síðar að herða reglur og þrengja með auknum eiginfjárkröfum, nýlegum, og nú endurbótaáætlunum og viðbragðsáætlunum og öllum þessum innri eftirlitskerfum og öðru sem fylgir. Við erum enn með í gildi skatta. En í millitíðinni er fjármálaumhverfið allt að breytast. Það skjóta upp kollinum ný fyrirbæri og bankar eins og við þekktum 2008 verða að öllum líkindum bara ekki til árið 2028.