148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

fjármálafyrirtæki.

422. mál
[15:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er fyrst og fremst frumvarp sem hefur áhrif á fjármálafyrirtæki sem eru rekin með starfsleyfi sem slík og þar af leiðandi ekki á lífeyrissjóðina. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að aukinni skilvirkni sé skilað í betri viðskiptakjörum, en það er hins vegar erfitt að halda öðru fram en að t.d. bankaskatturinn sem við höfum verið með hér undanfarin ár sé annað en íþyngjandi og hann sé til bjögunar á samkeppnisskilyrðum á markaði. Það er ekkert annað svar til við þeirri stöðu sem hv. þingmaður vék að hér en að gera það sem stjórnvöld geta gert til þess að efla samkeppni á þessum markaði. Hún er fyrst og fremst auðvitað innan lands, við íslensk heimili, en á fyrirtækjamarkaðnum er samkeppni líka að utan og þar vantar töluvert mikið upp á að íslensk fjármálafyrirtæki séu með hagkvæmni stærðarinnar til þess að keppa um stærstu bitana á íslenska viðskiptabankamarkaðnum. Um önnur atriði verð ég bara að vísa til frumvarpsins og þeirrar vinnu sem er fram undan. Ég óska eftir sem bestu samstarfi við nefndina.

Ég nefndi það í framsöguræðu minni að þetta væri fyrri hluti innleiðingar af þessari tilskipun og síðari hlutinn kæmi í haust og við vonumst til þess að við séum að styrkja umgjörð með starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja. En ég ítreka það sem ég hef hér látið koma fram að við þurfum að gæta okkar á því að missa ekki sjónar á þeirri þróun sem er að gerast á þessu sviðinu almennt. Það eru fjölmargir nýir leikendur að koma fram á sviðið sem eru að leysa af hólmi fjármálafyrirtækin sem eiga undir þessa löggjöf að heyra þegar kemur að fjármögnun ólíkra verkefna.