148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

fjármálafyrirtæki.

422. mál
[15:16]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Eins og fram kom í umræðum um fundarstjórn fyrr í dag höfum við ekki haft mjög langan tíma til að kynna okkur málefnin sem hér eru á dagskrá í dag. En mig langar aðeins að velta upp punktum sem hæstv. fjármálaráðherra kom inn á í andsvari áðan, að við stöldrum aðeins við og veltum fyrir okkur því regluverki sem við höfum skapað fyrir fjármálamarkaðinn á undanförnum árum.

Í því andrúmslofti sem hér var, sérstaklega á fyrstu árunum eftir hrun, þar sem öll megináhersla stjórnvalda var eðlilega á að bregðast við þessu gríðarlega áfalli, reyna að tryggja með öllum tiltækum ráðum að eitthvað slíkt gæti ekki hent aftur, er samt veruleg hætta á að við missum sjónar á tilgangi hlutanna; af hverju við erum að þessu, til hvers erum við að veita fjármálakerfinu svona mikla athygli og sterkt eftirlit. En það sem skiptir miklu meira máli: Til hvers er þetta fjármálakerfi? Það er það sem ég óttast að við höfum misst sjónar á í dag og hæstv. ráðherra kom einmitt inn á. Á sama tíma og við höfum verið upptekin við að herða allar reglur sem um kerfið gilda, sérstaklega um viðskiptabankana, herða eiginfjárkröfur þessara sömu viðskiptabanka til að koma í veg fyrir að þeir fari á hausinn aftur, herða eftirlitið með þeim og auka valdheimildir eftirlitsaðila, tryggja að Fjármálaeftirlitið verði nú í stakk búið til þess að fyrirbyggja að önnur eins atburðarás og haustið 2008 geti farið af stað aftur, leitar á mann sú hugsun: Erum við búin að vera að grafa jafnt og þétt undan samkeppnishæfni þessa sama fjármálakerfis þannig að sú þjónusta sem því er í raun ætlað að veita sé farin að leita eitthvert allt annað?

Þá horfum við til þess að það er verulega breytt frá því sem hér var fyrir rúmum áratug að innlendir bankar gátu þjónustað stærstu fyrirtæki landsins um lánsfé. Þeir eru lítt eða ekki samkeppnisfærir til slíks í dag, hafa ekki þann aðgang að erlendu lánsfjármagni sem til þarf, þó að það fari vissulega batnandi, og eru einfaldlega kostnaðarlega séð ekki samkeppnisfærir við erlenda banka. Þar staldrar maður fyrst við þessar gríðarlega ríku eiginfjárkröfur sem við gerum, langt umfram það sem viðgengst í samkeppnislöndum okkar, þar sem við rekum viðskiptabankakerfið með á þriðja tug prósenta í eiginfjárhlutfall, á meðan flestir evrópskir bankar, að ég hygg, séu enn rétt við eða jafnvel undir 10% eiginfjárhlutfalli.

Það gefur augaleið að við slíkar kringumstæður lækkum við ekki vaxtakostnað íslenskra heimila eða fyrirtækja. Þetta leggst auðvitað með gríðarlegum þunga á bæði atvinnulíf og heimili. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að girða fyrir að atburðirnir frá haustinu 2008 geti endurtekið sig því að það var auðvitað gríðarlegur skellur, kostnaður fyrir atvinnulíf og heimili. En það má heldur ekki gleymast að fjármálakerfið er hér til að þjóna okkur, íbúum landsins, um lánsfé og tryggja að fyrirtæki geti starfað bæði hér heima og erlendis á samkeppnishæfum forsendum á við það sem gengur og gerist hjá fyrirtækjum annars staðar í Evrópu eða heiminum. En ekkert síður að íslensk heimili hafi aðgang að lánsfjármagni á einhverjum sambærilegum kostnaði og gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Auðvitað hefur myntin töluvert þar að segja en það hefur líka mikið með það að gera hver endanlegur fjármagnskostnaður heimila og fyrirtækja er hversu kostnaðarsamt eða hagkvæmt fjármálakerfið okkar er.

Hér held ég að pendúllinn sé kominn dálítið hraustlega í hina áttina. Við þurfum að fara að horfa til þess hvernig við getum í senn tryggt traust og öruggt eftirlitskerfi með fjármálakerfinu okkar til þess að tryggja að almenningur, fyrirtæki, heimili, geti treyst innstæðum sínum innan fjármálakerfisins, treyst því að það sé þarna til að þjónusta, en ekkert síður að við getum treyst því að fjármálakerfið okkar sé samkeppnisfært við keppinauta sína á erlendri grundu og aðra keppinauta sína hér innan lands. Við megum heldur ekki gleyma því að á sama tíma og við höfum verið að leggja auknar byrðar á viðskiptabankana okkar eru t.d. húsnæðislánin að færast meira beint til lífeyrissjóðanna, sem geta þá boðið heimilunum talsvert hagstæðari kjör en viðskiptabankarnir. Ég fagna þeirri samkeppni, vil alls ekki reisa henni neinar skorður. En ég hef áhyggjur af að bankarnir geti ekki lengur keppt við þessi kjör. Það þarf að vera okkur umhugsunarefni þegar við erum að halda áfram að vinna með og móta eftirlitsumhverfi fjármálastofnana að við séum ekki bara að ýta fjármálakerfinu eitthvert annað, sem er kannski það sem er að gerast.

Ég hef áhyggjur af og held að sé alveg ástæða til að fara að staldra við og spyrja sig: Hver verða gæði útlánasafna hins íslenska bankakerfis ef við erum alltaf að ýta bestu bitunum eitthvert annað? Ef það eru erlendir bankar sem lána stærstu fyrirtækjunum, jafnvel skuldabréfaútboð sem við getum sagt að þau næststærstu nota til að fjármagna sig hér innan lands eða ýmiss konar fjárfestingarsjóðir sem sprottið hafa upp. Hér er talað um vöxt skuggabankakerfis. Ég vil ekki kalla þetta skuggabankakerfi, þetta er bara önnur gerð fjármálastofnana en viðskiptabankar. En það er alveg ljóst að þessir aðilar eru að taka til sín sífellt stærri sneið af fjármálakerfinu. Eftir stendur, og ég myndi hafa áhyggjur af því, talsvert lakari gæði útlánasafna íslensku bankanna sem standa til tryggingar þessum sömu innstæðum sem við erum alltaf að reyna að verja.

Við megum ekki missa sjónar á þessum grundvallaratriðum. Á endanum er það það sem við erum að reyna að tryggja, að koma í veg fyrir að einhver kostnaður vegna mögulegs falls fjármálastofnunar velti yfir á skattgreiðendur eða ríkið og að sparifjáreigendur geti treyst því að innstæður þeirra séu öruggar í bankakerfinu.

Ef við horfum á að bestu fyrirtækjalánin eru farin annað, stærstu lán heimilanna líka farin annað, þ.e. íbúðalánin, sem eru traustustu lánveitingar fjármálakerfisins í heild meðan hér þrífst byggð, eins og maður segir, eru þetta sennilega þau lán sem hvað minnst útlánatap er af heilt yfir hjá öllum fjármálastofnunum. Við þurfum að huga að þeim þáttum. Við megum ekki þrengja svo að fjármálakerfinu að við séum hreinlega að þvinga lánveitingarnar í eitthvert annað form, út fyrir ramma þess eftirlitskerfis sem við erum að reyna að smíða.

Þess vegna held ég að samhliða því sem við erum að ræða hér um mjög mikilvæga innleiðingu á mjög mikilvægri gerð og það er gríðarlega mikilvægt að fjármálakerfið búi við sambærileg eftirlits- og rekstrarskilyrði og keppinautar þess annars staðar í Evrópu, þurfum við að gæta sérstaklega að því að við séum heldur ekki að ganga að óþörfu eitthvað lengra en verið er að gera okkur með þessari innleiðingu, að við séum ekki enn og aftur að þrengja frekar að starfsumhverfi íslenskra fjármálastofnana og séum að horfa á heildarmyndina, heildaráhrifin sem þetta kann að hafa, ekki bara á hina eftirlitsskyldu starfsemi heldur líka hvert við erum mögulega að þrýsta útlánastarfseminni annað ef því er að skipta. Ég minni í því samhengi t.d. á þá umræðu sem við áttum í gær í þinginu um starfsemi smálánafyrirtækja þar sem má vel velta fyrir sér hvort við höfum með því að gera harðari kröfur varðandi yfirdráttarlán heimila ýtt fátækasta, verst setta enda heimilanna, út í allt aðra og miklu verri lántöku en yfirdrættirnir voru nokkurn tíma á sínum tíma.

Þess vegna hvet ég eindregið til þess að bæði í nefndarvinnunni í tengslum við innleiðingu á þessari gerð verði það skoðað mjög vandlega en eins í þeirri hvítbókarvinnu sem hafin er á vegum ríkisstjórnarinnar að við skoðum þetta mjög vandlega. Ég held að það sé orðið tímabært að við tökum til gagngerrar endurskoðunar nálgun okkar á fjármálakerfið, hvernig við viljum hátta eftirlits- og regluverkinu í kringum það. Ekki bara gagnvart starfsemi hinna eftirlitsskyldu aðila heldur líka annarra aðila hins svonefnda skuggabankakerfis sem hefur verið að spretta upp samhliða. Það held ég líka að sé í ljósi þess að umræðan um fjármálakerfið hefur, kannski eðlilega í ljósi atburða, verið töluvert neikvæð. Það er ákveðin hætta á að jafn mikil meðvirkni verði í þróun mála í þessa áttina og var á sínum tíma þegar viðskiptabanka- eða fjármálaæðið var sem mest á okkur hér á fyrsta áratug þessarar aldar, uppgangurinn ævintýralegur og allir glöddust, en eftirlitinu var ekki sinnt. Nú kann að vera komin upp sú staða að við séum allt of dugleg í eftirlitinu en alls ekki nægilega dugleg í að huga að starfsskilyrðum þessara fjármálastofnana og við verðum að gæta að okkur í þeim efnum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að hlusta á fjármálakerfið sjálft í þessum efnum og segja: Tryggjum þeim sambærileg rekstrarskilyrði, sambærilegt samkeppnisumhverfi, og þeir bankar og fjármálastofnanir búa við sem þessar sömu stofnanir þurfa að keppa við. Við eigum að horfa til þátta eins og eiginfjáraukans, eins og umfangs og hlutverks Fjármálaeftirlitsins og hvort tímabært sé orðið að sameina þætti eins og fjármálaeftirlit og eftirlitsþátt Seðlabankans hvað fjármálakerfið varðar, allt til að tryggja sem best í senn eftirlitskerfi en um leið ýtrustu hagkvæmni sem minnstan kostnað ber, af því að þessi kostnaður endar hjá okkur, á heimilunum, hjá atvinnulífinu.

Þess vegna fagna ég líka þegar þessi ríkisstjórn áformar að endurskoða bankaskattinn. Hann er klárlega orðinn barn síns tíma, var hækkaður á sínum tíma til þess að hvetja til lúkningar á skiptum slitabúanna. Nú er þeirri vinnu lokið mjög farsællega. Það er orðið tímabært að tryggja að við séum ekki að skattleggja fjármálakerfið meira en viðgengst í nágrannalöndum okkar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín mikið lengri að þessu sinni. Ég hvet nefndina eindregið til að skoða mjög vandlega hvað varðar þessa tilskipun að við séum að innleiða þetta ekki með neinum stífari kvöðum en kveðið er á um í reglugerðinni sjálfri, um leið og ég ítreka fyrri orð mín að auðvitað er þetta eftirlit og þær heimildir sem hér er verið að veita gríðarlega mikilvægt fyrir langtímaheilbrigði fjármálakerfisins. En það er líka mikilvægt að við vöndum okkur í því efni.