148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

fjármálafyrirtæki.

422. mál
[15:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé alltaf mjög hættulegt, og það er í sjálfu sér alveg sama á hvaða markaði það er, að við lítum á okkar fyrirtæki sem of stór til að falla, að þau megi ekki fara á hausinn eða það kalli beinlínis á að ríki hlaupi undir bagga og bjargi fyrirtækinu með einhverjum hætti.

Eins og ég skil megininntak þessarar reglugerðar, og eins og viðbrögð okkar við fjármálahruninu á sínum tíma voru, ætti það í sjálfu sér að vera skýr lærdómur eða skýr skilaboð til kröfuhafa og eigenda fjármálastofnana, að koma þurfi til inngripa af því tagi, þá sé það á þeirra kostnað fyrst, þ.e. að eignarhlutur eigenda hverfi klárlega og kröfuhafar kunni að búa við verulega skerta stöðu ef grípa þarf til svo mikilla aðgerða. En það var alveg klárt að viðhorfið til bankakerfisins, ekki bara hér á landi heldur í heiminum öllum, var það að stofnanir sem væru svo stórar myndu aldrei fá að fara á hausinn. Stjórnvöld í viðkomandi löndum myndu alltaf hlaupa undir bagga og bjarga málum. Það veit aldrei á gott. Það er bara mjög hollt og heilbrigt að fyrirtæki, eigendur þeirra og kröfuhafar, þurfi á endanum að bera ábyrgð á því hvernig til tekst í rekstrinum.

Ég held reyndar þessu tengt að kannski sé orðið tímabært líka í hinu hefðbundna viðskiptabankalíkani að taka innstæðutryggingu til endurskoðunar. Ég held að þetta sé orðin tímaskekkja í sparnaði í heiminum almennt miðað við þau fjölbreyttu sparnaðarform sem eru til, að verið sé að bjóða upp á ríkistryggða innstæðutryggingu af þessu tagi. Við erum með ríkistryggt sparnaðarform sem heitir ríkisskuldabréf. Við ættum kannski bara að láta þar við sitja, að bankar þurfi bara að keppa um fjármagn á nákvæmlega sömu forsendum og aðrir þurfa að gera án þess að ríki eða (Forseti hringir.) einhvers konar innstæðutryggingakerfi komi til sögunnar.