148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

fjármálafyrirtæki.

422. mál
[15:37]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur andsvarið.

Þetta eru mjög áhugaverðar vangaveltur. Auðvitað þurfum við að velta því fyrir okkur þegar við tölum um kerfislægar mikilvægar stofnanir og að setja þurfi sérstaka regluumgjörð um þær eða gera sérstaklega miklar kröfur til þeirra. Á endanum; hver er tilgangur þeirra? Hvaða þjónustuhlutverki gegna þær stofnanir við samfélagið? Þetta er ákveðinn milliliður í miðlun fjármagns í hagkerfinu frá eigendum fjármagns til þeirra sem þurfa á því að halda. En við þurfum líka að átta okkur á því að fjármálamarkaður hefur gerbreyst frá því þessi hugmyndafræði var kannski ríkjandi þegar menn voru að forðast bankaáhlaup eftir kreppuna miklu snemma á síðustu öld. Sparnaðarform okkar og möguleikar til þess er miklu fjölbreyttara og meira aðgengi almennings er að verðbréfasjóðum, ríkisskuldabréfum, öðru sparnaðarformi en innlánum, er stóraukið.

Maður spyr: Ef við erum að setja allt þetta regluverk um fjármála- eða sérstaklega viðskiptabanka fyrst og fremst til þess að tryggja einmitt innstæðuverndina og að þetta regluverk og þær kröfur sem við gerum verði á endanum svo kostnaðarsamar að stór hluti viðskiptavina bankanna leitar annað, þeir séu einfaldlega ósamkeppnisfærir, ekki samanburðarhæfir um kjör, til hvers er þá verndin? Til hvers er leikurinn gerður ef við erum í raun og veru búin að ýta þessu sama fjármagni á einhverja aðra staði í fjármálakerfinu og eftir stendur bankastofnun með innstæðurnar en talsvert lakara eignasafn þeim til tryggingar? Þá held ég að við þurfum kannski að staldra við og fara að spyrja okkur grundvallarspurninganna aftur: Er þetta forsvaranleg vernd? Eru þessar (Forseti hringir.) stofnanir þess eðlis að þær megi ekki fara á hausinn? Ættum við kannski að huga að laga- og regluumgjörð með einhverjum öðrum hætti en við erum að gera í dag?