148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[15:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra gat þess réttilega að það er verið að endurflytja þetta í þriðja sinn, held ég að sé rétt munað hjá mér, og það kom m.a. til umfjöllunar í þinginu í fyrra. Maður staldrar við, þetta virkar einfalt mál, nokkuð sem við eigum að geta farið í gegn með í þinginu, en í fyrra komu umsagnir sem m.a. bentu á réttindi kvenna. Lífeyrissjóður bænda var stofnaður 1974 en konur fengu ekki aðild að sjóðnum fyrr en 1984, þar með makar bænda sem eru þá mjög háðir þessum greiðslum.

Ég ætlaði að vita hvort tekið hefði verið tillit til þessara athugasemda og hvort þær hefðu kannski verið ástæðan fyrir því að málið var ekki afgreitt á síðasta þingi. Spurning mín til hæstv. ráðherra er: Hefur réttinda þessara kvenna, því að oftast eru þeir makar sem þarna um ræðir konur, verið gætt við yfirferð og samningu á þessu frumvarpi?